Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Reyksprengjum kastað inn í hús í nótt

23.11.2022 - 07:15
Mynd með færslu
 Mynd:
Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins var kallað út í nótt vegna reyksprengja sem kastað var inn í heimahús.

Um eittleytið í nótt var reyksprengju hent inn í hús í Fossvogi og þurfti slökkvilið að aðhafast, að sögn varðstjóra. 

Um klukkustund síðar stefndi í annað slíkt tilfelli í Hafnarfirði en viðkomandi hafði ekki erindi sem erfiði. Lögregla kom á vettvang þegar sprengjukastið var enn í undirbúningi. 

Slökkvilið hefur ekki upplýsingar um hvort þessir atburðir tengist viðamiklum átökum í undirheimunum, sem sem spruttu upp vegna hnífstunguárásar í Bankastræti á fimmtudag. Hótanir hafa gengið á víxl milli hlutaðeigandi og aðstandendum hinna grunuðu hótað og eigur þeirra skemmdar. Dæmi eru um að ungabörnum hafi verið hótað lífláti. 

Aðspurður sagði varðstjóri þó að vanalega hlytist ekki mikið tjón af reyksprengjum. Hann vissi ekki nákvæmlega hvaða sprengjur hefðu verið notaðar í nótt en yfirleitt hefðu þær fátt annað í för með sér en vonda lykt.