Óvissustigi lýst yfir vegna skriðuhættu á Austfjörðum

23.11.2022 - 17:37
Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
Ríkislögreglustjóri hefur lýst yfir óvissustigi almannavarna á Austfjörðum vegna skriðuhættu í samráði við lögreglustjórann á Austfjörðum og Veðurstofu Íslands.

Í tilkynningu frá ríkislögreglustjóra segir að mikið hafi rignt á svæðinu í nóvember og grunnvatnsstaða sé há þar sem hún er mæld, á Seyðisfirði og Eskifirði. „Og má gera ráð fyrir að hún sé almennt há í landshlutanum.“

Ríkislögreglustjóri segir að næstu daga sé spáð töluverðri rigningu, sérstaklega á fimmtudag og föstudag. Það hlýni í nótt og sá snjór sem fallið hafi  í dag muni taka upp. Hætta sé á skriðum við þessar aðstæður og hún geti aukist í úrkomu næstu daga.

Sérstaklega sé fylgst með skriðuhættu á Seyðisfirði. Notaður sé vöktunarbúnaður sem þar hefur verið komið upp. „Nú í nóvember hefur mælst hreyfing í Neðri-Botnum og Þófa. Mesta hreyfingin hefur verið á Búðarhrygg, en þar voru miklar hreyfingar síðasta haust. Hreyfingar utan hryggjarins hafa verið mun minni.“

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV