„Ókostir sem hafa birst okkur í eftirmálum sölunnar“

23.11.2022 - 13:16
Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RUV
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir ríkisstjórnina einhuga um að útilokað sé að fara aftur sömu leið við söluna á Íslandsbanka líkt og nú var gert í lokuðu útboði. Hann segir Bankasýsluna þurfa að standa ábyrg fyrir gagnrýni sinni á skýrslu ríkisendurskoðunar.

Fjármálaráðherra var spurður spjörunum úr af öllum nefndarmönnum og spurningar voru af ýmsum toga. Bjarni lagði sjálfur áherslu á heildarsamhengi hlutanna og að salan hafi verið ríkissjóði hagfelld og það skipti öllu. En nefndarmenn spurðu meðal annars hvort jafnræðis hefði verið gætt í útboðinu. Ráðherra sagði það veikan blett á söluferlinu að svo hefði ekki verið og hann var spurður hvort ríkisstjórnin myndi velja sömu aðferð við frekari sölu. „Ég tel að það séu kostir við þetta fyrirkomulag sem hafi til dæmis birst í því að við fengum hátt verð fyrir mjög stóran hlut sem var seldur á skömmum tíma en það eru líka ókostir sem hafa birst okkur í eftirmálum sölunnar og þess vegna finnst mér ljóst að við munum ekki styðjast við þetta fyrirkomulag við frekari sölur en það eru margar aðrar leiðir sem við getum nýtt okkur. Þannig að þessi ríkisstjórn útilokar að fara þessa leið aftur? Já ég held við séum alveg einhuga um það,“ sagði Bjarni.

Stjórnarandstaðan þjarmaði að ráðherra á fundinum. Hann var til dæmis spurður hvort hann vissi hvort erlendir fjárfestar væru í raun erlendir og hvort lánað hefði verið til kaupanna. Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður nefndarinnar, segir að fleiri gestir eigi eftir að koma fyrir nefndina en það sé erfitt að segja til um hvenær störfum hennar í þessu máli ljúki. Hún segir að það væri ákjósanlegast að þeim lyki fyrir jólahlé, en alls ekki víst að það takist. 

Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RUV
Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður Stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis.