Maður á áttræðisaldri skotinn til bana í Smálöndum

Mynd með færslu
 Mynd: SVT
Karlmaður á áttræðisaldri lést í skotárás í bænum Växjö í sænsku Smálöndunum á þriðjudagskvöld. Frá þessu er greint á vef sænska ríkissjónvarpsins SVT. Þar segir að maðurinn hafi verið skotinn í íbúðahverfinu Teleborg um klukkan átján að staðartíma og verið úrskurðaður látinn á vettvangi. Málið er rannsakað sem morð og var lögregla með mikinn viðbúnað á og við vettvang brotsins.

 Á ellefta tímanum í kvöld, að sænskum tíma, var lögregla enn einskis vísari um hver hefði eða hefðu mögulega verið að verki, þrátt fyrir mikla leit að vísbendingum og vitnum. Þá hefur lögregla ekkert látið eftir sér hafa um mögulegar ástæður glæpsins.

58 manns hafa verið skotnir til bana í Svíþjóð það sem af er þessu ári, fleiri en nokkru sinni fyrr á friðartímum.