Leitar til hægriflokka við stjórnarmyndun

23.11.2022 - 18:30
Hinn 5. október 2022 boðaði Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, til þingkosninga, sem fram fara 1. nóvember. - Mynd: AP / Ritzau Scanpix
Mette Frederiksen, starfandi forsætisráðherra í Danmörku og leiðtogi Jafnaðarmannaflokksins, vonast til þess að geta myndað nýja ríkisstjórn á næstu vikum. Á fréttamannafundi sem hún hélt í forsætisráðuneytinu í dag kom fram að frá þingkosningunum fyrsta nóvember hefði hún haldið 49 fundi með leiðtogum annarra flokka ásamt þingmönnum Færeyja og Grænlands til að kanna um hvaða málefni þeir væru sammála og hvar væri þörf á málamiðlunum.

Eftir þessa þriggja vikna fundalotu segir Mette Frederiksen að fjórir flokkar séu ekki lengur inni í myndinni. Það eru Einingarlistinn, Valkosturinn - Alternativet, - Nýi borgaralegi og loks Danmerkurdemókratar Ingrid Støjberg sem tilkynntu sjálfir í morgun að þeir ætluðu ekki að taka þátt í frekari viðræðum.

Vill mynda „breiða“ stjórn

Mette Frederiksen segir að hér með séu stjórnarmyndunarviðræðurnar séu komnar á nýtt stig. Hún hyggst á næstu vikum reyna að mynda svokallaða breiða stjórn, það er með þátttöku flokka til vinstri, á miðju og til hægri. Og það er ekki eftir neinu að bíða, sagði forsætisráðherra á fréttamannafundinum. Hún kvaðst ætla að hefja viðræðurnar með stærsta borgaraflokknum, Venstre og hafði boðað forsvarsmenn hans til fundar í forsætisráðuneytinu klukkan hálf þrjú í dag að staðartíma.

Margar málamiðlanir blasa við

Aðrir flokkar sem Mette Frederiksen hyggst ræða við á næstu vikum eru Moderaterne, það er miðflokkur Lars Løkke Rasmussens, fyrrverandi forsætisráðherra, Róttæki vinstriflokkurinn, Bandalag frjálslyndra, Íhaldsflokkurinn, Sósíalíski þjóðarflokkurinn og Danski þjóðarflokkurinn. Hún segir ómögulegt að segja hvort hægt verði að ná samkomulagi um öll þau umfangsmiklu mál sem brenna á Dönum um þessar mundir, en upphafið er gott, segir hún.

Mette bætti við að öllum mætti ljóst vera að flokkarnir þyrftu að gera margar málamiðlanir til að ná samkomulagi að lokum.

Verður áfram forsætisráðherra

Leiðtogar stærstu hægriflokkanna lýstu því yfir í kosningabaráttunni og eftir að úrslitin lágu fyrir að þeir væru andvígir því að ganga til samstarfs við vinstriflokkanna. Jakob Ellemann-Jensen, formaður Venstre, sagði þó þegar hann kom til fundar við Mette Frederiksen síðdegis að það lægi ljóst fyrir að hún yrði áfram forsætisráðherra. Niðurstaða þingkosninganna væri að rauðgræna blokkin hefði fengið meirihluta.

Ekkert samstarf við Venstre

Eftir kosningarnar, þegar Mette Frederiksen sagðist vilja mynda breiða ríkisstjórn, lýsti Mai Villadsen, formaður Einingarlistans, því yfir að ekki kæmi til greina að hún tæki þátt í stjórnarsamstarfi þar sem Venstre ætti hlut að máli. Villadsen sagði þegar hún kom af fundi með Mette í morgun að forsætisráðherra hefði ákveðið að snúa baki við rauðgræna meirihlutanum sem þó hefði fengið meirihluta atkvæða í kosningunum.

„Hún kveður okkur, þrátt fyrir allan þann árangur sem við höfum náð á liðnum árum,“ sagði Mai Villadsen og bætti við: „Við blasir miklu hægrisinnaðri Mette Frederiksen en áður. Hún hefur valið Venstre í staðinn fyrir öll fátæku börnin sem svo mjög þarfnast hjálpar á erfiðum tímum.“

Franciska Rosenkilde, formaður Alternativet, eða Valkostsins, lýsti einnig yfir vonbrigðum með þá stefnu sem stjórnarmyndunarviðræðurnar hafa tekið. Danskir fjölmiðlar hafa eftir henni að hún hafi verið á samningafundi í gær og áttað sig á hvað væri í aðsigi. Því hefði hún ákveðið að láta gott heita.