Föðurmissirinn kveikjan að hugarfarsbreytingu

Mynd: Regína Ósk / Regína Ósk

Föðurmissirinn kveikjan að hugarfarsbreytingu

23.11.2022 - 09:41

Höfundar

„Þetta var kveikjan í hausnum á mér. Ég ætla ekki, ef ég fæ þetta verkefni að fá krabbamein, þá vil ég vera líkamlega í stakk búin til að takast á við það,“ segir Regína Ósk. Hún segir það verkefnið endalausa að huga vel að heilsunni, „en ekki í neikvæðri merkingu.“

Söngkonan Regína Ósk ákvað fyrir fimm árum að setja heilsuna í fyrsta sæti eftir sviplegt fráfall föður síns. „Þetta er bara mitt verkefni í lífinu, að sjá um mig.“  Hún fór yfir fimm ákvarðanir sem höfðu mikil áhrif á líf hennar í Fimmunni í þættinum Fram og til baka á Rás 2. Ákvarðanirnar eru allt frá því að kaupa íbúð, hvað lag hún ákvað að syngja í Söngvakeppni sjónvarpsins og að ákveða að gifta sig. „Þetta eru allt saman ákvarðanir.“ 

Verkefnið endalausa að huga að heilsunni 

Regína segist hafa farið í ýmis átök í tímans rás, jafnan með það að markmiði að missa kíló. Hún hafi fundið að hún þurfti að hrista þann hugsunarhátt af sér. „Ég fór í þjálfun til Yesmine Olsson, að læra að hreyfa mig markvisst og hún hjálpaði mér með þessa hugarfarsbreytingu,“ segir Regína. „Ekki hugsa, ég ætla að vera rosa flott fyrir þetta gigg eða fyrir Eurovision eða þessa tónleika. Heldur er þetta bara verkefnið endalausa en ekki í neikvæðri merkingu.“ 

Kveikjan að heilsuátakinu var sviplegt fráfall föður hennar. Hann hafi fundið fyrir slappleika og farið inn á spítala en fór aldrei heim aftur. „Það tók bara átta vikur.“ Hann var greindur með ólæknandi krabbamein en var ekki nægilega líkamlega hraustur til að takast á við lyfjameðferð. „Hann var ekki búinn að fara vel með sig, var með áunna sykursýki og fleira.“ 

Eftir föðurmissinn fann Regína Ósk að hún vildi taka eigin heilsu föstum tökum. „Þetta var kveikjan í hausnum á mér. Ég ætla ekki, ef ég fæ þetta verkefni að fá krabbamein, þá vil ég vera líkamlega í stakk búin til að takast á við það.“ 

„Maður þarf að halda sér við líkamlega. Andlegi þátturinn kemur með þegar þú breytir um lífsstíl og hreyfir þig markvisst. Ekki bara hreyfa sig í þrjá mánuði heldur hreyfa sig alltaf, aldrei hætta.“ 

Trúuð en þolir ekki ofstæki 

Regína hlúir ekki síður að hinu andlega og ræktar til dæmis samband sitt við trúna í Lindakirkju, þar sem hún starfar. „Ég er með foreldramorgna þar á þriðjudagsmorgnum og sunnudagaskóla á sunnudögum.“ 

„Ég er trúuð en þoli ekki ofstæki,“ segir Regína. Hún segir að kirkja sé ekkert nema fólkið sem er í henni. „Fyrir mér er kirkja félagsmiðstöð með góðum gildum; kærleikurinn og gullna reglan. Þetta er svo basic, bera virðingu fyrir náunganum og koma fram eins og þú vilt að það sé komið fram við þig. Þakklæti og virðing, þetta getur ekki verið fallegra.“ 

Drekkur aldrei áfengi þegar hún er að skemmta 

Regína Ósk segist alltaf vera að vinna. Hún starfar sem söngkennari og skólastjóri í Söngskóla Maríu Bjarkar alla virka daga. Auk þess kemur hún fram sem söngkona, syngur í jarðarförum, veislustýrir og skemmtir svo eitthvað sé nefnt.  

Hún tók snemma á ferlinum þá ákvörðun að hafa aldrei áfengi um hönd þegar hún er að skemmta. „Ég veit að fólki finnst þetta skrítið, maður er í vinnu fram eftir, maður er að veislustýra, maður er með ball og svona.“ Þegar Regína var að stíga sín fyrstu skref sem söngkona hvatti móðir hennar hana til að fara varlega. „Ég er svo hlýðin,“ segir hún og hlær. „Ég tók ákvörðun um að drekka aldrei áfengi.“ 

„Það er svo auðvelt þegar að fólk byrjar á því að fara úr böndunum,“ útskýrir hún. Henni finnst ekki fara vel saman að drekka áfengi þegar hún er að skemmta og líkir því saman við að aðrir væru að drekka áfengi í vinnum sínum. „Það er svo auðvelt að fá sér einn og svo bara missa það. Ég er ekki til í það.“ 

Vissi að þetta væri keppnin um annað sætið 

Regína sló eftirminnilega í gegn í Söngvakeppni sjónvarpsins árið 2006 með laginu Þér við hlið. Hún hafði verið að koma fram sem söngkona um árabil en stimplaði sig inn í íslenskt tónlistarlíf með flutningnum og hafnaði í öðru sæti. „Ég vissi hver myndi vinna, við vissum það öll í keppninni,“ segir Regína en lagið Til hamingju Ísland með Silvíu Nótt bar sigur úr býtum. „Þetta ver ekki keppnin um fyrsta sætið, þetta var keppnin um annað sætið og ég vann hana.“ 

Regínu var boðið að syngja í undankeppninni og fékk að velja úr fimm lögum. „Það voru nokkrir höfundar sem höfðu samband við mig og ég fékk það lúxusvandamál að velja úr fimm lögum. Þetta var erfið ákvörðun.“ 

Að endingu valdi hún lagið sem talaði mest til hennar, lagið Þér við hlið eftir Trausta Bjarnason við texta Magnúsar Þórs Sigmarssonar. Lagið er ekki síst eftirminnilegt fyrir óvenjulegan söngkafla um miðbik lags þar sem Regína beitir fyrir sér svokölluðu flautu-tónum. „Sem kom alveg óvart, þetta var ekkert í laginu, þetta gerðist bara.“ 

Ekki hrædd við Eurovision-stimpilinn 

„Það eru svo margir sem tala um Eurovision-stimpil. Mér er bara alveg sama,“ segir Regína Ósk. „Þarna er maður bara að koma með nýtt íslenskt lag.“ Hún segir þetta góðan vettvang til að kynna nýja íslenska tónlist því mikið sé lagt í flutninginn. „Þú færð budget í það, þú mátt sviðsetja það og þú ert komin með nýtt íslenskt lag. Hvað er að því?“ 

Regína Ósk hefur keppt fimm sinnum í Söngvakeppni sjónvarpsins auk þess að syngja bakraddir í fleiri lögum. „Ég er náttúrlega búin að syngja bakraddir í milljón lögum, ég byrjaði þar.“ Hún segir marga hafa spurt sig hvers vegna hún væri að syngja bakraddir. „Ég var bara róleg. Ég veit alveg hvert ég er að stefna og hver ég mun fara,“ segist hún hafa hugsað. 

Regína reyndist sannspá og keppti með lögin Aldrei of seint árið 2015, Hjartað brennur árið 2012, Þér við hlið árið 2006 og Engu þurfum að tapa árið 2003 sem hún söng ásamt Hjalta Jónssyni. Fimmta lagið fór svo alla leið í stóru keppnina, Eurovision, árið 2008 í Serbíu. Það var lagið This is my life sem hún flutti með Frirðiki Ómari en saman skipuðu þau Eurobandið.  

Lifir lengi í Eurovision-glæðum 

Eurobandið sigraði í Söngvakeppni sjónvarpsins árið 2008, keppni sem mörgum er minnistæð ekki síst fyrir það hve löng hún var. „Þetta voru 40 lög, frá október til febrúar,“ rifjar Regína upp. Í úrslitunum kepptu að lokum átta lög og eftir langa keppni báru Regína Ósk og Friðrik Ómar í Eurobandinu sigur úr býtum. „Sigurinn var mjög sætur, ég skal segja þér það.“ 

Lagið hafnaði í 14. sæti ytra og lifir enn góðu lífi meðal ástríðufullra Eurovision-aðdáenda. „Mér finnst eiginlega bara meiri stemmning núna en hefur verið, það kunna þetta allir.“ Þau Friðrik Ómar hafa ferðast til að skemmta á Eurovision-skemmtunum víða í Evrópu og taka eigið lag í bland við aðra Eurovision-smelli við góðar undirtektir.  

Hefði ekki kynnst manninum sínum ef hún hefði sigrað Söngvakeppnina 

Regína er þakklát fyrir að hafa ekki sigrað Söngvakeppnina 2006 með Þér við hlið, því annars hefði hún líklega ekki kynnst manninum sem hún er gift í dag. „Hann segir alltaf ef ég er að syngja Þér við hlið, sem er alveg sagt, ef ég hefði unnið og farið út þá hefðum við ekki kynnst.“ 

Þau kynntust í apríl 2006, en Regína segir að hún hefði líklega verið á fullu í Eurovision-undirbúningi á þessum tíma ef hún hefði unnið Söngvakeppnina. Þess í stað ákvað Regína ákvað að fylgja Friðriki Ómari vini sínum norður til Akureyrar. „Hann var að syngja með Guðrúnu Gunnars á Húsavík og ég bara kem með, ég hef ekkert að gera og mér leiðist,“ rifjar hún upp. Eftir tónleikana á Húsavík koma þau seint um kvöldið aftur til Akureyra og ákveða að kíkja á ball með hljómsveitinni Egó á Sjallanum. „Og kynnist honum þá.“ 

Hjónaband er ákvörðun 

„Friðrik benti mér á hann af því að hann kannaðist við vin hans.“ Regínu fannst hann strax sætur en aðeins of ungur. „Hann var bara 22 ára,“ segir Regína sem sjálf var 28 ára á þessum tíma. „Ég átti pínu erfitt með þetta.“ Að lokum sigraði þó ástin og þau eiga að baki tæplega 15 ára farsælt hjónaband.  

„Mér finnst hjónaband, eins órómantískt og það hljómar, þá er þetta ákvörðun og maður þarf að standa og falla með henni. Þetta er í blíðu og stríðu.“ Hún segir það óneitanlega stóra ákvörðun á ákveða að verja lífi sínu með annarri manneskju. „Þú ert að segjast ætla að eyða lífi þínu með öðrum aðila og deila gleði, sorg og öllu.“ 

Regína og Svenni gengu í hjónaband sama ár og hún fór í Eurovision, árið 2008. „Hann sagði, maður verður að negla hana niður,“ segir Regína og skellir upp úr.  

Rætt var við Regínu í Fimmunni í þættinum Fram og til baka á Rás 2. Hlýða má á þáttinn í heild sinni hér í spilara RÚV.

Tengdar fréttir

Menningarefni

„Við vorum aldrei best vaxnir eða einlægastir“

Popptónlist

„Regína Ósk var rænd árið 2006“