Flokkur Bolsonaros krefst ógildingar milljóna atkvæða

Frjálslyndi flokkurinn í Brasilíu, flokkur Jairs Bolsonaro, fráfarandi Brasilíuforseta, hefur kært niðurstöður kosninga á öllum kjörstöðum þar sem notast var við ákveðna tegund kosningavéla í seinni umferð forsetakosninganna í október síðastliðnum. Vélarnar eru um 280.000 talsins og voru notaðar í báðum umferðum kosninganna, sem Bolsonaro tapaði naumlega fyrir Luiz Inacio Lula da Silva.

Stjórn flokksins kærði úrslit seinni umferðarinnar til sérstaks kosningadómstóls og fór fram á að öll atkvæði sem greidd voru í gegnum þessar vélar verði ógilt. Munurinn á fylgi þeirra Lula og Bolsonaros hafi verið töluvert yfir landsmeðaltalinu þar sem þær voru notaðar, sem bendi til óeðlilegrar skekkju.

Engar sannanir um svindl

Í kærunni er tekið fram að ekki liggi fyrir sannanir um svindl, en fullyrt að þær gefi ekki kost á að staðfesta með áreiðanlegum hætti að atkvæðin sem frá þeim komi séu ósvikin. Því sé það eina rétta í stöðunni að ógilda þau.

Verði farið að þeirri kröfu þýði það að Bolsonaro nái endurkjöri, með 51,05 prósentum gildra atkvæða á móti 48,95 prósentum fyrir Lula, segir í erindi flokksins.

Verða að kæra úrslit í báðum umferðum

Dómstóllinn brást við með því að gefa Frjálslynda flokknum sólarhringsfrest til að breyta kæru sinni þannig að hún taki einnig til niðurstaðna fyrri umferðarinnar, enda hafi sömu vélar verið notaðar í henni. Gerist það ekki, verði kærunni vísað frá án frekari aðgerða dómstólsins.

Allar þar til bærar stofnanir hafa þegar staðfest úrslit forsetakosninganna, þar á meðal þessi sami dómstóll, landskjörstjórn Brasilíu og sérstök rannsóknarnefnd varnarmálaráðuneytisins.