Sýknaður en vissi að sambandið var á gráu svæði

22.11.2022 - 14:10
Mynd með færslu
 Mynd: Eva Björk Benediktsdóttir - RÚV
Héraðsdómur Norðurlands eystra sýknaði í síðustu viku karlmann um tvítugt fyrir að hafa átt í kynferðislegu sambandi við 14 ára stúlku. Dómurinn taldi hann ekki hafa haft ástæðu til að efast um frásögn stúlkunnar sjálfrar um að hún væri 15 ára. Stúlkan sagðist hafa orðið skotin í manninum þegar hún var 12 ára og hann starfsmaður í æskulýðsstarfi sem hún sótti.

Dómur héraðsdóms var birtur í dag.

Rannsókn lögreglu hófst eftir að stúlkan skrifaði bréf til forsvarsmanna æskulýðsstarfsins og greindi frá því að hún hefði átt í kynferðislegu sambandi við starfsmanninn bæði fyrir og eftir að hún varð 15 ára. Ekki kemur fram í dómnum hvers konar æskulýðsstarf þetta var.

Maðurinn sagði fyrir dómi að hann hefði unnið í þessu æskulýðsstarfi um fimm ára skeið eða frá 2015 til 2020.  Hann mundi fyrst eftir einhverjum samskiptum við stúlkuna þegar hann kom í heimsókn  sumarið 2019. Þá hefði stúlkan sagt hann vera að horfa á rassinn á sér. Það hefði verið honum minnisstætt því hann hefði aldrei lent áður í slíku. 

Hann hefði þó ekki vitað að þetta væri stúlkan fyrr en hún hefði rifjað þetta upp í samskiptum þeirra á stefnumótaforritinu Tinder.

Þegar hann hefði kynnst stúlkunni hefði hann velt fyrir sér aldri hennar. Honum hefði fundist að hún hlyti að lágmarki að vera 16 ára af myndum á Instagram að dæma. Þegar hún hefði sjálf sagst vera 15 ára hefði hann talið að hún hlyti þá að vera að verða 16 ára.

Hann sagðist hafa áttað sig á að hann væri á gráu svæði vegna þess hve ung stúlkan væri og á rauðu svæði varðandi reglur í starfsemi æskulýðsstarfsins sem bönnuðu öll svona samskipti. Hann hafi hins vegar talið sig vera réttu megin við lögin. Framkoma hennar og talsmáti hefði ekki borið með sér að hún væri yngri en 15 ára.

Í dómnum kemur fram að hann hafi vitað að ef upp um samband þeirra kæmist gæti það kostað hann vinnuna. Hann staðfesti einnig að hann hefði sótt námskeið á vegum æskulýðsstarfsins og honum verið ljóst að starfsmenn mættu ekki vera í kynferðislegum samskiptum við börn úr starfinu. 

Hann hefði þó ekki vitað hversu ung stúlkan væri fyrr en í bílferð með henni  og vinkonu hennar.  Þá hefði vinkonan spurt hann hvort hann vissi ekki hve gömul stúlkan væri.  Þegar hann hefði heyrt aldur hennar hefði hann fengið áfall. 

Stúlkan sagðist ekki hafa haft mikil samskipti við manninn þegar hún sótti ækuslýðsstarfið. Hann hefði aðallega verið að sinna viðhaldi og lagfæringum en henni samt fundist hann horfa mikið á sig. Hún sagðist hafa liðið illa með samband sitt og mannsins eftir á.

Héraðsdómur leit til framburðar mannsins um að hann hafi verið meðvitaður um samband hans og stúlkunnar væri siðferðislega vafasamt og illa séð af samfélaginu. Og að hann sæi mikið eftir að hafa stofnað til sambandsins.

Dómurinn horfði einnig til samskipta þeirra á Tinder þar sem stúlkan spurði manninn meðal annars: „Hvernig er að vera ástfangin af 15 ára dverg?“ Fannst dómnum ummælin renna stoðum undir þá fullyrðingu mannsins að hann hefði ekki vitað að hún væri 14 ára. Dómnum þótti sömuleiðis gæta ósamræmi og ónákvæmni í framburði stúlkunnar um hvort hún hefði greint manninum frá aldri sínum. 

Héraðsdómur sagðist heldur ekki geta tekið undir það með ákæruvaldinu að samskipti þeirra sýndu að manninum hefði mátt vera ljóst að stúlkan væri ekki orðin 15 ára.  Taldi dómurinn að þau vörpuðu miklu frekar ljósi á að þau hefðu bæði verið meðvituð um að samskipti þeirra væru samfélagslega vafasöm vegna aldursmunarins og stöðu mannsins sem starfsmaður í æskulýðsstarfinu.

Var það niðurstaða dómsins að meta manninum það ekki til refsiverðs gáleysis að hafa ekki gengið frekar eftir upplýsingum um aldur stúlkunnar áður en þau voru saman. Var hann því sýknaður af ákærunni.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV