Sanna Marin segir lykilatriði að Úkraína vinni stríðið

22.11.2022 - 14:00
Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Sanna Marin, forsætisráðherra Finnlands, ræddu saman í dag. Þær héldu opna málstofu í Þjóðminjasafninu og í kjölfarið var fréttamannafundur, áður en þær héldu hvor um sig í viðtöl.

Marin er hér í vinnuheimsókn, en tilgangur ferðarinnar er meðal annars að ræða umsókn Finna um aðild að Atlantshafsbandalaginu og öryggismál í Evrópu. Meðal viðburða var spjall þeirra Katrínar í Þjóðminjasafninu, sem var haldið á vegum Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands.

Mikilvægt að fá konur í valdastöður

Í upphafi var Sanna spurð um mikilvægi þess að konur gegni valdastöðum í samfélaginu. Hún segir það skipta miklu máli. Mikil þörf sé á fleiri konum í valdastöður - í Evrópu séu einungis nokkrar konur í æðstu stöðum stjórna landa sinna. Hún telur Norðurlöndin leiðandi afl í þessum efnum. Þá skipti einnig miklu máli að fá ungt fólk og fólk með ólíkan bakgrunn í stjórnunarstöður.

Katrín tekur undir með Sönnu. Hún segir það skipta miklu máli að raddir fólks með fjölbreyttan bakgrunn og ólíka reynslu heyrist. 

Sanna bendir á þá ógn sem stafi af stafrænni áreitni og hatursorðræðu, sem dæmi. Þarna geti þjóðirnar tvær miðlað reynslu á milli sín. Stjórnvöld landanna geti rætt hvað hafi gengið vel þeirra megin og bæði gefið og fengið ráðleggingar. „Þetta eru risastór málefni í dag. Við getum lært hvert af öðru og unnið saman að lausnum við þeim vandamálum sem nú blasa við okkur.“

Innrás Rússa breytti veruleika Finna

Katrín segir það sameina Norðurlöndin að þau séu opin lýðræðisríki. Það sé jafnvel mikilvægara nú en nokkurn tíma áður. „Við búum við opnar rökræður og erum með sterk þjóðþing í samfélögum okkar. Þetta er ekki síst mikilvægt vegna þess að við erum að sjá ákveðið lýðræðislegt bakslag. Ekki einungis í fjarlægum löndum, heldur í Evrópu líka. Þessi styrkur Norðurlandanna er því mikilvægari en nokkru sinni fyrr.“

Löndin séu einnig náin hvað varðar sögu og menningu. Þær Sanna eru sammála um að Íslendingar og Finnar geti lært mikið hver af öðrum.

Sanna segist telja að Norðurlöndin hafi mikið af sömu gildum. „Þið eruð auðvitað ekki hluti af Evrópusambandinu - en þið eruð alltaf velkomin,“ segir hún. Katrín hlær og segir Sönnu ítrekað benda á þetta.

Sanna segir Finnland nú bíða þess að vera samþykkt inn í Atlantshafsbandalagið. Hún telur þjóðina geta lagt mikið að mörkum til bandalagsins. Hún segir heimsmyndina hafa breyst eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu og að nú sé mikilvægt að Norðurlöndin standi saman, sem og Atlantshafsbandalagið í heild. 

Katrín segist hafa orðið þess áskynja í Finnlandi að íbúar landsins upplifðu nýjan og ógnvænlegan raunveruleika eftir að stríðið hófst. Fólk hafi sagt henni að innrásin í Úkraínu hafi breytt öllu fyrir Finna. Sanna tekur undir þetta.

Mynd: Ragnar Visage / RÚV

Innganga í nafni friðar

Sanna undirstrikar að það sé í nafni friðar sem Finnar vilji ganga í Atlantshafsbandalagið. Finnar vilji vera öruggir í landi sínu og búa við öryggisnet ef nágrannar þeirra, Rússar, ógni þeim eða landamærum þeirra. Hún segir mikilvægt að Svíþjóð og Finnland fái inngöngu saman, eins fljótt og hægt er. Aðspurð um afstöðu Ungverjalands og Tyrklands til inngöngunnar segist hún bjartsýn.

Tyrkir hafa sérstaklega sýnt inngöngu þjóðanna tveggja mótstöðu, en unnið er að því að leysa málin.

Sjálfbærni Evrópu mikilvæg

Sanna segir mikilvægt að Evrópa losi sig úr þeirri stöðu að vera háð stórveldum um nauðsynjar eins og orku. Evrópulönd eigi ekki að vera háð Kína eða Rússlandi um nauðsynjavörur. Þetta sýni sig í orkukrísunni sem nú ríkir í Evrópu. Evrópa reiði sig á orku frá Rússlandi. Álfan þurfi að verða sjálfbær, til dæmis um orku, matvæli, lækningavörur og tækni. Hún segir mikilvægt að fjárfesta í nýrri tækni og lausnum. Þessu þurfi Evrópulönd, og Norðurlönd, að standa saman í.

Í tengslum við nýafstaðna loftslagsráðstefnu bendir Sanna á mikilvægi þess að ríkari þjóðir greiði fyrir þann skaða sem losun þeirra hefur valdið fátækari þjóðum.

Forsætisráðherrarnir tveir segja bæði lönd ákveðin í að ná markmiðum sínum um kolefnishlutleysi. Katrín segir mikið forgangsmál fyrir Ísland að vernda Norðurslóðir og lífríki þeirra. Sanna tekur undir það. Hún segir mikilvægt að fjárfesta í grænni orku, grænum lausnum og grænum störfum.

Mikilvægt að fjárfesta í menntakerfinu

Sanna bendir á smæð Norðurlandanna og segir að til að vera samkeppnishæf í alþjóðasamfélaginu skipti öllu að fjárfesta vel, til dæmis í menntakerfinu. Það hafi Finnar gert í mörg ár.

Hún segir það skipta miklu máli að sofna ekki á verðinum núna. „Við þurfum að fjárfesta í nýsköpun, tækniframþróun og menntun.“

Katrín segir lakari geðheilsu ungs fólks sýna fram á að hlúa þurfi að ungu kynslóðinni og veita fólki stuðning í því hraða og tæknivædda samfélagi sem við höfum byggt. Sanna er sammála því.

Er ekki á Tiktok vegna netöryggis

Katrín telur samfélagsmiðla mikla bergmálsklefa og segir stjórnmálamenn geta fest sig í slíkum klefum. Mikil upplýsingaóreiða ríki á miðlunum og þetta sé nýtt landslag í samfélagsumræðu og stjórnmálum. 

Sanna segir samfélagsmiðla þjóna því hlutverki að miðla hlutum. Þeir séu vissulega margir - hún segist sjálf ekki vera á TikTok, vegna þess að eignarhaldið sé kínverskt. Það þurfi líka að hugsa um netöryggi.

Hún segir mikilvægt að hlusta á allar hliðar og að samfélagsmiðlar geti nýst vel til að koma ólíkum sjónarmiðum á framfæri.

Lykilatriði að Úkraína vinni stríðið

Sanna segir afar mikilvægt að lögð sé lykiláhersla á stríðið í Úkraínu. „Ef Rússar vinna þetta stríð, þá munum við sjá fleiri stríð í framhaldinu.“ Hún segir Rússa þá munu ráðast inn í fleiri lönd. Nú þurfi að sjá til þess að Úkraína vinni stríðið.

Upptöku frá viðburðinum má sjá hér að neðan. 

 
Gunnhildur Kjerúlf Birgisdóttir
Fréttastofa RÚV