Meiri áhersla á loftslagsmál, lýðræði og innviði

22.11.2022 - 16:29
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Loftslagsmál og innviðir fá aukið vægi í þjóðaröryggisstefnu, samkvæmt þingsályktunartillögu sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur lagt fram. Lýðræði verður fyrirferðarmeira en áður í stefnunni.

Þjóðaröryggisstefnan var upphaflega samþykkt 2016 eftir margra ára stefnumótun og undirbúning. Komið er að fyrstu endurskoðun hennar, sem á að ráðast í á fimm ára fresti með hliðsjón af breyttum aðstæðum.

Helstu breytingarnar snúa að loftslagsmálum og innviðum. Loftslagsbreytingar eru nefndar einu sinni í upptalningu ógna í upphaflegu þjóðaröryggisstefnunni. Nú fá þær sinn eigin tölulið þar sem kveðið er á um að sporna eigi við röskun á lífsskilyrðum og búsetu; og vinna að samdrætti í kolefnislosun, orkuskiptum og fleiri þáttum til að sporna við loftslagsbreytingum. Við bætist ný áhersla á vernd mikilvægra innviða og að styrkja áfallaþol samfélagsins gegn hvers kyns ógnum. Meðal annars sem kemur nýtt inn í þjóðaröryggisstefnuna er fjarskiptaöryggi við útlönd og upplýsingaöryggi sem bætist við netöryggi.

Þá er meira lagt upp úr lýðræði en áður. Það er nefnt einu sinni í tengslum við stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna í gildandi þjóðaröryggisstefnu. Lagt er til að kveðið verði á um að tryggja lýðræðislegt stjórnarfar hérlendis og bera virðingu fyrir lýðræðislegum gildum.