Manchester United til sölu fyrir rétt verð

Mynd með færslu
 Mynd: EPA Images - RÚV

Manchester United til sölu fyrir rétt verð

22.11.2022 - 23:24
Aðeins nokkrum klukkustundum eftir að Manchester United greindi frá brotthvarfi Cristiano Ronaldo frá félaginu bárust fregnir af því að eigendur félagsins séu reiðubúnir að selja það frá sér. Glazer-fjölskyldan hefur átt félagið í 17 ár, en virðist nú tilbúin að láta það af hendi fyrir rétta upphæð.

Stjórn félagsins er reiðubúin að hlusta á öll tilboð, þar á meðal nýja fjárfestingu í því, sölu, eða önnur viðskipti með fyrirtækið, segir í tilkynningu frá Manchester United.

Undanfarin ár hafa eigendur félagsins mætt miklu mótlæti meðal stuðningsmanna þess. Árangurinn innan vallar hefur heldur ekki staðist væntingar stuðningsmanna, en eftir að Alex Ferguson yfirgaf félagið árið 2013 hefur félaginu aldrei tekist að verða enskur meistari.

Örfáar vikur eru síðan eigendur Liverpool lýstu því yfir að þeir væru reiðubúnir að selja félagið fyrir rétt verð. Líkt og Glazer-fjölskyldan eru eigendur Liverpool bandarískir. Bæði félögin voru meðal þeirra sem reyndu að stofna svokallaða ofurdeild Evrópu. Hún átti að vera svipuð bandarískum íþróttadeildum, þannig að aðeins lokaður hópur félaga fengi að taka þátt. Hugmyndin vakti litla hrifningu stuðningsmanna þeirra félaga sem vildu stofna til deildarinnar, og voru bæði Manchester United og Liverpool nokkuð snögg til að draga sig úr hópi stofnenda. Félögin sem vildu taka þátt í ofurdeildinni litu á hana sem mikla tekjulind.

Tengdar fréttir

Fótbolti

Ronaldo farinn frá Manchester United