Leggur fram frumvarp um auknar heimildir lögreglu

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra stendur við málverk í Ráðherrabústaðnum.
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Ríkisstjórnin afgreiddi í morgun frumvarp Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra um forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu og vopnaburð. Ráðherra vonast til þess að mæla fyrir málinu á Alþingi í næstu viku.

„Í þessu frumvarpi þá erum við að færa heimildir lögregluyfirvalda svona nálægt því sem að gengur og gerist í nágrannalöndum okkar. Skipulögð brotastarfsemi og ógn gagnvart ríkinu eða hryðjuverkastarfsemi hún virðir engin landamæri og krefst mjög náins samstarfs á milli lögregluembætta í ólíkum löndum,“ segir Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra.

Hann segir að frumvarpið geri ráð fyrir að eftirlit með störfum lögreglu verði styrkt.

„Við köllum þetta afbrotavarnir og það er sérstaklega það sem við erum að ávarpa í þessu lagafrumvarpi. Á sama tíma erum við að styrkja verulega störf eftirlitsnefndar með störfum lögreglu og bætum þar í bæði starfsmönnum og heimildum. Þannig að við erum að styrkja þá starfsemi á sama tíma og við gefum þessar auknu heimildir til lögreglunnar,“ segir Jón.

Hann segir að samstaða sé um málið innan ríkisstjórnarinnar.

„Ég held að það séu allir sammála um að það er mjög mikilvægt að okkar lögregla geti tekist á við þessi mál með sambærilegum hætti og lögregluyfirvöld í öðrum löndum. Geti bæði veitt upplýsingar á milli landa og tekið á móti upplýsingum á milli landa,“ segir Jón.

Hann vonast til þess að mæla fyrir frumvarpinu á Alþingi í næstu viku.

„Við erum með tillögu til fjármálaráðuneytisins á grundvelli þess átaks sem við erum að fara í gegn skipulegðri brotastarfsemi og aukinni löggæslu fyrir fjárlagagerð næsta árs. Og ég geri mér væntingar um að það verði umtalsvert aukið fjármagn sett í löggæslumálin,“ segir Jón.

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV