Íransstjórn herðir enn róðurinn gegn mótmælendum

epa10313758 A protester places a paper dove into the ground at Bicentennial Park during a rally calling for global solidarity for the citizens of Iran, in Sydney, Australia, 19 November 2022.  EPA-EFE/PAUL BRAVEN AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
 Mynd: EPA-EFE - AAP
Öryggissveitir Íransstjórnar hertu í gær enn á aðgerðum sínum gegn mótmælendum í landinu vestanverðu. Þar búa að stærstum hluta Kúrdar en vel á annan tug liggur í valnum að mati mannréttindasamtaka.

Landsvæði Kúrda hafa verið ein þungamiðja mótmælanna sem hófust í september í kjölfar andláts Mahsa Amini í höndum siðgæðislögreglu Íransstjórnar. Hún var af kúrdískum uppruna, 22 ára og sökuð um að hafa brotið gegn ströngum lögum um slæðuburð kvenna. 

Mikill fjöldi fólks á svæðinu hefur mótmælt klerkastjórninni undanfarna daga, ekki síst í tengslum við útfarir fólks sem féll fyrir hendi öryggislögreglunnar í fyrri aðgerðum. 

Mannréttindasamtökin Hengaw, sem hafa aðsetur í Noregi, segja Írani hafa gert árásir á þrjár borgir og birtu myndskeið þar sem heyra mátti byssuskot og holhljóð stórskotaliðsvopna.

Hengaw segir að minnst þrettán hafi fallið fyrir byssukúlum öryggissveita í borgunum þremur. Þeirra á meðal er maður sem skotinn var meðan lík unglingsdrengs var fært til mosku í borginni Javanroud. 

Samtökin segja blóðbirgðir sjúkrahúsa á svæðinu á þrotum þannig að erfitt sé að gera aðgerðir á særðu fólki. Írönsku mannréttindasamtökin CHRI lýsa atburðunum sem blóðbaði.