Blístrað og trallað í storminum

Mynd: Árstíðir / RÚV

Blístrað og trallað í storminum

22.11.2022 - 16:25

Höfundar

Nú er heldur betur farið að styttast í jólalaga-holskefluna en það eru enn nokkur lög í tuðrunni sem fagna einhverju öðru en Kristus og snjó. Það tónlistarfólk sem á lög í Undiröldunni að þessu sinni eru Árstíðir, Valborg Ólafsdóttir og Veitan, Bistro Boy ásamt X.U.L., Unnur Malín, Addi Rokk, KristinnR og Sonus Futurae.

Árstíðir - Bringing Back the Feel

Hljómsveitin Árstíðir frá Reykjavík snýr nú aftur með nýja smáskífu og myndband sem boðar nýja tónlistarnálgun hljómsveitarinnar á væntanlegri plötu sem kemur út á næsta ári. Bringing Back the Feel er lag sem stendur við það sem lofað er í titlinum og myndbandið býður hlustendum upp á að flauta og brosa eða hringja í nágrannana og segjast elska þá.


Valborg Ólafsdóttir og Veitan - Einn dagur enn

Veitan er hópur lagasmiða og upptökustjóra sem fá hina ýmsu söngvara til liðs við sig og nú er komið að henni Valborgu. Valborg Ólafs er söngkona og söngvaskáld, bóndi, söngkennari og sveitarlistamaður Rangárþings eystra árið 2021 þegar hún gaf út breiðskífu sína, Silhouette.


Bistro Boy, X.U.L - Eindir II

Á fimmtudaginn kemur út hjá Möller Records ný plata frá Bistro Boy og X.U.L. þar sem öll lögin eru öll lög eru samin og útsett af Frosta Jónssyni og Gašper Selko.


Lonely Lighthouse - My soul friend

Lonely Lighthouse er listamannsnafn píanóleikarans Birgis Þórissonar sem hefur sent frá sér lagið My Soul Friend, poppskotið neo-classical sóló-píanóverk eftir Birgi Þórisson. Lagið varð til eftir að hann kynntist gamla keltneska hugtakinu um anam cara eða sáluvini. Við það varð til saga um sálufélaga og ferðalag þeirra, umvafin keltneskum áhrifum í tónlistinni.


Unnur Malín - Stormur

Lagið Stormur sendi Unni Malín í keppni Hannesarholts - Leynist lag í þér? en hún segist ekki hafa skrifað það sérstaklega fyrir keppnina. Unni Malín fannst ástaróður Hannesar til stormsins er svo fallegur og hafði tengt við hann á margan hátt, helst þó með að standa úti í beljandi vindi.


Addi rokk - Tattoo girl

Arnar Þór Þorsteinsson kallar sig Adda Rokk þegar hann gerir músík og hans nýjasta lag er Tattoo Girls sem hann vinnur með þeim Magnúsi Leif Sveinssyni og Einari Vilberg.


KristinnR - Praise the Machine

KristinnR gefur út sína aðra sólóplötu Primate’s Delight þann 18. nóvember en hún inniheldur sex ný frumsamin lög sem hann hefur unnið að undanfarin tvö ár. Tónlistin er blanda af popp- og rokktónlist með fjölbreyttu hljóðgervlaívafi, þar sem Matthías M.D. Hemstock spilar á trommur og dóttir hans syngur.


Sonus Futurae - Myndbandið

Hljómskífa Sonus Futurae frá 1982, Þeir sletta skyrinu…, varð aðgengileg í síðustu viku, 40 árum eftir að hún kom fyrst út. Hljómsveitin var fyrsta hljóðgervlahljómsveit landsins kalda og hlaut töluverða athygli á árunum 1982-3 fyrir tölvupopp sitt.