Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Umhverfið í fyrirrúmi á Hönnunarverðlaununum

Mynd: RÚV / RÚV

Umhverfið í fyrirrúmi á Hönnunarverðlaununum

21.11.2022 - 15:46

Höfundar

Hönnunarverðlaunin eru afhent í níunda sinn í ár. Þau hafa þann tilgang að varpa ljósi á mikilvægi og gæði íslenskrar hönnunar og arkitektúrs. Hönnunarstudíóið og plastendurvinnslan Plastplan hlýtur aðalverðlaunin í ár en heiðursverðlaun fær Reynir Vilhjálmsson landslagsarkitekt.

Plastplan hlýtur hönnunarverðlaunin

Með umhverfissjónarmið og tilraunamennsku að leiðarljósi hefur Plastplan hannað og framleitt vörur úr endurunnu plasti frá stofnun, árið 2019. Björn Steinar Blumenstein og Brynjólfur Stefánsson, stofnendur Plastplans, segja viðurkenninguna merkja að allt brasið hafi ekki verið til einsksis. Þeir segja að hugmyndafræði Plastplans byggist á að skapa fullkomna hringrás endurunninna efna. Kastljós leit inn á verðlaunaafhendinguna og ræddi við verðlaunahafana, sem hafa markað spor í íslenskt umhverfi á ólíkan máta.

„Síðan leggjum við mikla áherslu á staðbundna framleiðslu, sjálfbært efni og íslenska hönnun. Heimurinn er að verða móttækilegri og mér finnst allir vera að færast í átt að því að passa að allt sé samfélagslega og umhverfislega réttlætanlegt. Þannig að við höfum fulla trú á því, við ætlum að leggja þessari baráttu lið.“

Reynir Vilhjálmsson heiðursverðlaunahafi

Heiðursverðlaunin í ár hlýtur Reynir Vilhjálmsson landslagsarkitekt. Hann er brautryðjandi í faginu og hefur komið að skipulagi íbúðahverfa og umhverfishönnun á fjölmörgum grænum svæðum sem móta borgarlandslagið eins og við þekkjum það í dag. Að loknu námi við arkitektaskólann í Kaupmannahöfn lá leið Reynis til Íslands til að vinna í hópi sérfræðinga að borgarskipulagi Reykjavíkur. Hann kom einnig að skipulagi Árbæjarhverfisins og Bakkahverfisins í Breiðholti.

„Ég kem hingað til lands 1963 og þá gagngert til að skipuleggja þetta hverfi hérna, Árbæjarhverfið. Þá er maður yfirfullur af því að þetta þurfi að vera barnvænlegt umhverfi helst. Ídean var að búa til umhverfi sem var með góð útivistarsvæði í tengslum við íbúana.“

Ásamt útivistarsvæðum hefur Reynir komið að hönnun stærri umhverfisverka eins og snjóflóðavarnargarðanna á Siglufirði. Hann segir að Kínamúrinn hafi veitt honum innblástur fyrir hönnun varnargarðanna með það að markmiði að þeir yrðu meira en einungis það að vera vörn. 

„Þú getur aldrei gert mannvirki þannig að það sjáist ekki en þú þarft að gefa því reisn sem hæfir mannvirki. Ég hef stundum hugsað um Kínamúrinn. Það er eitthvert mesta umhverfishervirki sem hefur verið gert. Það var ráðist á hvað sem er og yfir hvað sem er. En þetta er í dag sem sagt eitt af undrum veraldar.“

Fjallað var um Hönnunarverðlaun Íslands í Kastljósi.