Þekkir tilfinningu landsliðskvenna

Mynd: Ragnar Santos / RÚV

Þekkir tilfinningu landsliðskvenna

21.11.2022 - 16:34
Vanda Sigurgeirsdóttir segir að hún hefði ekki orðið fyrsta konan til að gegna formennsku knattspyrnusambands í Evrópu ef hún veldi alltaf auðveldu leiðina. Frá þessu greinir hún í viðtali við Eddu Sif Pálsdóttur í Doha í Katar. Hún segir sína jafnréttisbaráttu hafa byrjað þegar hún var tíu ára á Sauðárkróki. Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.

Vanda segir í samtali við Eddu Sif að hún hafi talað við landsliðskonurnar sem voru ósáttar við að hafa ekki fengið treyjur í tilefni þess að þær hafa leikið 100 landsleiki fyrir Íslands hönd. „Þessi tilfinning að finnast manni ekki jafn mikilvægur, ég hef fengið þessa tilfinningu oft,“ segir Vanda.

Mynd: Ragnar Santos / RÚV
Vanda um jafnréttismál.

Vanda segist ekki sjá eftir því að hafa samþykkt að spila vináttulandsleik gegn Sádi Arabíu. Hún skilur gagnrýnina og að margir séu fúlir vegna leiksins, en hún hafi ákveðið að vera samkvæm sjálfri sér. Hún vilji styðja og styrkja Sáda í uppbyggingu kvannafótbolta og halda áfram að vinna með þeim að því. Varðandi umtal um fjárhæðir sem knattspyrnusambandið á að hafa fengið fyrir að spila leikinn segir Vanda sögusagnir um háar upphæðir ekki eiga við rök að styðjast. Upphæðin hafi rétt rúmlega dugað fyrir kostnaði.

Mynd: Ragnar Santos / RÚV
Vanda um leikinn gegn Sádi Arabíu.

Vanda kemur víða við í viðtalinu. Hún lýsir meðal annars vonbrigðum með ákvörðun FIFA að ætla að refsa fyrirliðum fyrir að bera fyrirliðaband með skilaboðum um samstöðu með hinsegin fólki. Þá þykir henni ræða Gianni Infantino, forseta FIFA, daginn fyrir fyrsta leik í HM frekar hafa verið til að sundra en sameina. 

Þegar hún lítur yfir farinn veg eftir rúmt ár í embætti formanns KSÍ segir hún að vinnan sé skemmtileg og fjölbreytt. Hún hafi þó átt til að láta neikvæðar hliðar starfsins hafa áhrif á sig, sérstaklega þegar margt neikvætt gerist á skömmum tíma.

Tengdar fréttir

Fótbolti

„Klaufalegt? Já kannski. Skammarlegt? Nei.“

Fótbolti

„Ekki eðlilegt að strákarnir fái treyju og við blóm"