Snjóþungt í sunnanverðum Noregi og Svíþjóð

21.11.2022 - 19:36
Erlent · Noregur · Svíþjóð · Evrópa · Veður
Mynd með færslu
 Mynd: SVT
Íbúar í sunnanverðri Svíþjóð vöknuðu margir hverjir upp við mikil læti í nótt, þegar þrumuveður fylgdi mikilli snjókomu. Sænska ríkissjónvarpið hefur eftir veðurfræðingnum Marcus Sjöstedt að slíkur veðurhamur sé mjög sjaldséður, en það geti gerst þegar mikil orka er í loftinu. Hann segir landsmenn mega búast við svipuðu veðri í nótt.

Kalt loft er yfir Svíþjóð, og á sama tíma er sjórinn undan ströndum Svíþjóðar hlýr. Slíkar aðstæður geta myndað það sem Sjöstedt kallar þrumusnjó. Samgöngur hafa farið úr skorðum víða á sunnanverðu landinu og segja sænskir fjölmiðlar að allar líkur séu á að lestarsamgöngur liggi að mestu niðri á morgun.

Samgöngur hafa farið verulega úr skorðum bæði í Svíþjóð og sunnanverðum Noregi, þar sem einnig hefur verið talsverð úrkoma í formi élja, slyddu og rigningar. Slyddan og rigningin hefur ekki dugað til þess að hreinsa vegi Noregs, þar sem hiti á vegum er það lágur að þar frýs allt. NRK greinir frá fjölda umferðaróhappa á sunnanverðu landinu. Þá er fólk beðið um að stöðva bílana sína þegar fer að snjóa með kvöldinu.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV