Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Samkomulagið langt frá því að vera nóg

21.11.2022 - 08:23
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Framkvæmdastjóri Landverndar segir það samkomulag sem náðist á Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna vera varnarsigur en alls ekki fullnægjandi. Hún segir losun vera að aukast.

Um helgina náðist samkomulag á loftslagsráðstefnunni COP 27 sem lauk í gær. Auður Önnu Magnúsdóttir er framkvæmdastjóri Landverndar. 

„Þetta er náttúrulega langt frá því að vera nóg og að það sé til dæmis ekki ákveðið að fasa alveg út eða losa okkur við jarðefnaeldsneyti, það er ekki komið. Að kljást við stóra losunarvalda eins og iðnað eða kjötiðnaðinn sem veldur líka gríðarlegri eyðingu á vistkerfum jarðarinnar, það er ekki inni.“ Þó hafi varnarsigur unnist þar sem markmið sem þegar hafa verið ákveðin standa óbreytt. Ekki var horfið frá markmiðum um samdrátt í losun til 2030 eins og margar þjóðir þrýstu á að yrði gert.  

„Við erum náttúrulega að bregðast við rosalega seint. Þetta er tuttugasta og sjöunda loftslagsráðstefnan sem segir að við erum búin að vita af vandanum í að minnsta kosti tuttugu og sjö ár og stjórnvöld og valdhafar hafa ekki brugðist við með nægilega skýrum hætti. Það þýðir að hættulegar afleiðingar loftslagsbreytinga eru komnar fram og með versta hætti sem við getum hugsað okkur.“ Auður segir viðkvæmustu hópana verða verst undir vegna loftslagsbreytinganna til að byrja með. 

Því segir hún samkomulag sem náðist um töp og tjón, sjóð sem samþykkt náðist um til að bæta þeim sem verða verst fyrir loftslagsskaða tjónið, vera mikilvægt. Vandamálið haldi áfram að vaxa hratt „Við sjáum bara á niðurstöðunum að losun er enn að aukast. Hún verður örugglega sú hæsta sem nokkurn tímann hefur verið í ár því margar þjóðir, meira að segja Evrópusambandið, eru að grípa til aukinnar kolanotkunar.“