Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Sameiginleg yfirlýsing: Verða ekki með regnbogaarmbönd

Mynd með færslu
 Mynd: -

Sameiginleg yfirlýsing: Verða ekki með regnbogaarmbönd

21.11.2022 - 10:03
Knattspyrnusambönd Englands, Wales, Belgíu, Danmerkur, Þýskalands, Hollands og Sviss hafa sent frá sér sameiginlega yfirlýsingu. Í henni kemur fram að fyrirliðar þeirra muni ekki bera regnbogaarmbönd til stuðnings við réttindabaráttu hinsegin fólks eins og hafði staðið til.

Áður nefnd knattspyrnusambönd höfðu lýst sig reiðubúin til að greiða sekt sem hlytist af því ef fyrirliðar þeirra bæru regnbogaböndin. En í yfirlýsingu þeirra kemur fram að FIFA, Alþjóða knattspyrnusambandið hafi gefið það skýrt í skyn að frekari refsingar yrðu viðhafðar ef lið reyndu að koma skilaboðum sem þessum á framfæri á HM. Gefið var í skyn að leikmenn fengju gul spjöld fyrir að bera armböndin.

„Við vorum reiðubúin að greiða sektir sem hefðu heyrt undir búningareglur og höfðum skuldbundið okkur til að bera armböndin. Hins vegar getum við ekki sett leikmenn okkar í þá stöðu að þeir gætu fengið gul spjöld eða hreinlega verið vísað af velli,“ segir meðal annars í þessari sameiginlegu yfirlýsingu knattspyrnusambandana.

Þau lýsa yfir mikilli reiði í garð FIFA vegna hótana um að spjalda leikmenn sem ætluðu að bera armböndin, sem hafa verið kölluð „One Love“ armbönd. Í yfirlýsingunni eru bæði leikmenn viðkomandi liða, sem og þjálfarar sagðir vonsviknir með ákvörðun FIFA.