Krassasig - Krassasig

Mynd: Sony / Krassasig

Krassasig - Krassasig

21.11.2022 - 14:15

Höfundar

Kristinn Arnar Sigurðsson eða Krassasig er fjölhæfur listamaður og hefur víða komið við sem leikmyndahönnuður, leikstjóri og tónlistarmaður undanfarin ár. Tónlist Krassasig er draumkennd, orkumikil og einlæg. Hann vinnur hana mikið í einrúmi, semur lög og texta auk þess að spila á öll hljóðfæri og pródúsera.

Platan Krassasig með Krassasig varð til á nokkurra ára tímabili og er hans fyrsta plata í fullri lengd. Drög að fyrstu lögunum gerði hann árið 2019 og platan varð svo til í litlum áföngum, inn á milli annarra verkefna, eitt lag í einu.

Þótt Krassasig vinni að mestu plötuna sjálfur þá koma við sögu Magnús Jóhann, Rubin Pollock, Guðlaug Sóley, Sverrir Arnórsson og Magnús Øder.

Það var snemma á þessu ári sem Kristinn Arnar eða Krassasig áttaði sig á undirliggjandi umfjöllunarefni plötunnar, sem hann segir í rauninni fjalla um hann sjálfan og innri átökin sem fólust í að búa hana til. Línan eða þráðurinn varð smám saman gegnumgangandi þema og í raun karakter plötunnar sem fjallar að einhverju leyti líka um að vaxa, þroskast og vera leikstjórinn í eigin lífi ,segir Krassasig.

Plata vikunnar að þessu sinni er Krassasig með Krassasig og verður spiluð í heild sinni eftir tíufréttir í kvöld á Rás 2.