Íranska landsliðið söng ekki þjóðsönginn

epa10317853 Players of Iran stand during their national anthem prior to the FIFA World Cup 2022 group B soccer match between England and Iran at Khalifa International Stadium in Doha, Qatar, 21 November 2022.  EPA-EFE/Neil Hall
 Mynd: EPA - RÚV

Íranska landsliðið söng ekki þjóðsönginn

21.11.2022 - 13:51
Íranska landsliðið í fótbolta tók ekki undir í eigin þjóðsöng, fyrir leik þess gegn Englandi á heimsmeistaramótinu í fótbolta, sem hófst klukkan 13. Íranskar konur í áhorfendastúkunni héldu uppi skiltum í aðdraganda leiksins til að vekja athygli á ástandinu í heimalandinu og blóðugum mótmælum sem hafa geisað þar í meira en tvo mánuði.

Áður en flautað var til leiks Englands og Íran á Heimsmeistaramótinu í fótbolta í Katar, voru þjóðsöngvar þjóðanna tveggja spiluð, venju samkvæmt. Það vakti athygli þegar íranska landsliðið tók ekki undir í þjóðsöng heimalands síns.

Þar með má ætla að liðið hafi komið þeim skilaboðum á framfæri að það standi með mótmælendum heima fyrir, sem hafa í meira en tvo mánuði mótmælt ægivaldi hinnar einráðu klerkastjórnar landsins, kúgun kvenna og misrétti. 

Eins og þekkt er orðið brutust mótmælin út eftir að ung kona, Mahsa Amini, lést í haldi svokallaðrar siðgæðislögreglu í Teheran, höfuðborg Íran. Hún var handtekin fyrir meint brot á lögum um höfuðslæður, en talið er að hún hafi verið barin til dauða.

Konur, líf, frelsi

Nokkrum mínútum fyrir upphaf leiksins talaði fréttamaður BBC við íranska konu sem hélt uppi skilti í áhorfendastúkunni sem á stóð „Konur, líf, frelsi - Alþjóðleg samstaða - #Mahsa Amini“. Að sögn fréttamanns BBC vildi konan ekki sýna andlit sitt á mynd, né segja til nafns. En skiltið vildi hún gjarnan sýna. Íranir um allan heim hafa sagt frá ótta sínum við að koma fram undir nafni eða að andlit þeirra sjáist á fréttamyndum af mótmælum, vegna ægivalds stjórnvalda í heimalandinu. 

epa10317739 Fans of Iran hold signs reading 'Woman, Life, Freedom' prior to the FIFA World Cup 2022 group B soccer match between England and Iran at Khalifa International Stadium in Doha, Qatar, 21 November 2022.  EPA-EFE/Neil Hall
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Íranskir áhorfendur mótmæla í stúkunni í Katar.

Tók afstöðu með mótmælendum

Fyrirliði íranska liðsins, Ehsan Hajsafi, talaði um ástandið í heimalandinu við blaðamenn fyrir leikinn og lýsti yfir stuðningi við þá sem hafa týnt lífinu í mótmælunum. 

„Við verðum að átta okkur á því að aðstæður í heimalandi okkar eru ekki í lagi og fólkið okkar ekki hamingjusamt,“ sagði hann. 

 

Mannúðarsamtök fullyrða að meira en 400 mótmælendur hafi fallið í átökum við öryggislögreglu Írans og allt að 17.000 hafi verið handteknir af yfirvöldum. Stjórnvöld í Íran hafa mætt mótmælendum af mikilli hörku og halda því fram út á við að mótmælin séu „óeirðir“, skipulagðar af erlendum óvinum Írans. 

Tengdar fréttir

Erlent

Fyrirliði Írans með áhyggjur af stöðu landa sinna

Erlent

Þekktar íranskar leikkonur handteknar fyrir mótmæli

Trúarbrögð

Enn fjölgar föllnum mótmælendum í Íran

Stjórnmál

Mannréttindaráð SÞ fundar vegna Írans