Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Íhuga að lækka kosningaaldur eftir dóm hæstaréttar

epa10312448 New Zealand's Prime Minister Jacinda Ardern attends the APEC Leaders' Dialogue with ABAC  event during the Asia-Pacific Economic Cooperation (APEC) summit in Bangkok, Thailand, 18 November 2022.  EPA-EFE/LILLIAN SUWANRUMPHA / POOL
 Mynd: EPA-EFE - AFP POOL
Nýsjálensk stjórnvöld hyggjast leggja fram frumvarp um lækkun kosningaaldurs eftir að hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að það mismuni borgurum landsins að miða upphaf kosningaréttar við átján ár. Málið hefur verið til umfjöllunar nýsjálenskra dómstóla í um það bil tvö ár.

Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja Sjálands, segir að umsvifalaust verði tekið til við smíði frumvarps þar sem kosningaaldur verði lækkaður í sextán ár. Guardian fjallar um málið.

Ardern kveðst sjálf afar fylgjandi breytingunni en að vitaskuld þurfi að bera málið undir þing landsins. Brýnt sé að ræða það í hörgul þannig að öll viðhorf komi fram. Róðurinn kann þó að verða þungur enda þarf 75 af hundraði atkvæða þingmanna til að breyta kosningalögum.

Hreyfing ungs baráttufólks fyrir mannréttindum sem kallar sig Make It 16, hefur um tveggja ára skeið sagt það eðlileg mannréttindi að fá að greiða atkvæði um málefni sem beinlínis snerta það og hafa nefnt loftslagsvána sem dæmi.

Það málefni eigi eftir að hafa mun meiri og langvinnari áhrif á líf ungs fólks en þeirra sem eldri eru. Þó einskorðast viðhorf unga fólksins ekki við loftslagsmálin ein.

Caeden Tipler, ein þeirra sem fer fyrir baráttuhópnum, segir útilokað að þing og ríkisstjórn hunsi þau skilaboð sem dómurinn sendi. Ardern kveður ólíklegt að lagabreytingum verði lokið fyrir næstu kosningar árið 2023.

Ríkin sem miða kosningarétt við lægri aldur en átján ár má telja á fingrum annarrar handar; Malta, Austurríki, Kúba og Brasilía miða við sextán ár og fólk á þeim aldri kýs fulltrúa til skoska þingsins en má ekki kjósa í almennum þingkosningum á Bretlandi.