Húnavatnssýslur hyggjast sameinast í úrgangsmálum

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV
Sveitarfélög á Norðurlandi hyggja á sameiginlegt átak til að samræma flokkun á úrgangi, þegar samningar renna út um áramót.

Lagabreytingar urðu til þess að farið var í endurskoðun

Set ég jólapappír í grænu tunnuna, hvert á snakkpokinn að fara og hvernig flokka ég kertaafganga? Margar spurningar geta vaknað þegar flokkun á rusli er annars vegar. Enn fleiri spurningar gætu þá vaknað um áramótin þegar innleiðing hringrásarhagkerfis tekur gildi og þar með krafa um skilvirkari flokkun. Alexandra Jóhannesdóttir, sveitarstjóri á Skagaströnd og fleiri fulltrúar sveitarfélaga í kring, stefna nú á sameiginlegt útboð í úrgangsmálum með þeirri von um að það skili sér í bættri þjónustu til íbúa.

„Við svona sjáum fyrir okkur af því að við vorum öll að missa samningana okkar, vorum með samninga sem voru komnir á tíma á sama tímabili og sáum hag okkar í því að fara í samkurl með útboð á þessu ári og það er það sem við vonumst til að klára núna fyrir áramót, ég veit ekki hvort það tekst en við erum að vinna ansi hörðum höndum að því að láta það gerast.“

Jákvæðar, þungar og umfangsmiklar breytingar

Alexandra segir samhug meðal sveitarstjórna um málið. „Við sjáum fyrir okkur að með því að fara í einhvers konar sameiginlegt átak í þessum málum þá getum við samræmt bæði flokkun á úrgangi í samræmi við nýju reglurnar og úthlutað merkingar íláta og auðveldað fyrir íbúa að takast á við þessar breytingar sem eru framundan.“

Hún segir ljóst að þótt breytingarnar séu jákvæðar, verði þær þungar og umfangsmiklar og því er mikið lagt upp úr því að vanda til verka.