Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Fyrsti samningafundurinn hjá ríkisáttasemjara

21.11.2022 - 11:35
Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Fyrsti sameiginlegi fundur samninganefnda Starfsgreinasambandsins, VR, Landssambands íslenskra verzlunarmanna og viðsemjenda þeirra í Samtökum atvinnulífsins hjá ríkissáttasemjara hófst klukkan tíu. Deilunni var vísað til ríkissáttasemjara fyrir viku.

Í síðustu viku voru haldnir fundir sáttasemjara með samninganefndunum sitt í hvoru lagi. Samkvæmt dagskrá ríkissáttasemjara er viðbúið að fundurinn standi í allan dag.

Þetta er ekki eina kjaradeila vetrarins sem komin er til ríkissáttasemjara. Rafiðnaðarsambandið, Félag vélstjóra og málmtæknimanna, Matvís og Samiðn hafa öll vísað sínum málum þangað. Þar sem Starfsgreinasambandið semur fyrir hönd sautján aðildarfélaga og Landssamband íslenskra verzlunarmanna fyrir hönd átta félagsdeilda eru mál 30 félaga og félagsdeilda komin á borð ríkissáttasemjara eftir að samningar stórs hluta vinnandi fólks runnu út um síðustu mánaðamót.

Á morgun verður haldinn fundur Eflingar og Samtaka atvinnulífsins í húsakynnum ríkissáttasemjara. Þeirri kjaradeilu hefur ekki verið vísað til embættisins en það leggur til fundarsal þar sem samninganefndir hittast.