Fyrirliði Írans með áhyggjur af stöðu landa sinna

21.11.2022 - 12:47
epa07640714 Ehsan Hajsafi of Iran reacts during the International Friendly soccer match between South Korea and Iran at the Seoul World Cup Stadium in Seoul, South Korea, 11 June 2019.  EPA-EFE/JEON HEON-KYUN
Ehsan Hajsafi, fyrirliði Írans á HM í Katar. Mynd: JEON HEON-KYUN - EPA
Fyrirliði landsliðs Írans á HM í fótbolta í Katar sagði á blaðamannafundi í gær að horfast þyrfti í augu við að staðan í heimalandinu væri ekki góð. Hann vill að liðið verði afl breytinga.

Mikil mótmæli hafa verið í Íran síðan í september þegar ung kona lést í haldi siðgæðislögreglunnar. Ekkert lát virðist á mótmælunum sem beinast gegn stjórnvöldum og vill fólk fella niður gamaldags reglur um hegðun og klæðaburð kvenna. Ehsan Hajsafi, fyrirliði karlalandsliðs Írans í fótbolta, sagði á blaðamannafundi í gær að horfast þurfi í augu við það að ástandið sé ekki gott. Íranir séu ekki hamingjusamir. 

Fyrirliðinn sagði að landsliðið væri í Katar en að það þýddi ekki að það eigi ekki að vera rödd fólksins. Allt sem liðið eigi sé fólkinu að þakka og þeir verði að gera sitt besta, skora mörk og tala máli landa sinna. Þá kvaðst hann vona að ástandið eigi eftir að lagast. 

Lögregla hefur beitt mótmælendur grófu ofbeldi og segja mannréttindasamtök að þrjú hundruð og áttatíu manns, hið minnsta, hafi verið banað. Mannréttindasamtök hafa kallað eftir því að Írönum verði vísað úr keppni á mótinu vegna stöðu mannréttinda.