Fangelsin full og ekkert má út af bregða

Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Fangelsi landsins eru nánast fullsetin, staðan í fangelsismálum er mjög alvarleg og ekkert má út af bregða að mati dómsmálaráðherra. Dæmi eru um að ekki hafi verið hægt að nýta fangaklefa vegna fjárskorts.

Gæsluvarðhaldsúrskurðir í kjölfar árásarinnar á skemmtistaðnum Bankastræti Club á fimmtudaginn þar sem á annan tug manna er í haldi, auka álagið á  fangelsin, sem þegar eru þéttsetin, að sögn Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra. Hann segir að aldrei hafi verið jafn margir í gæsluvarðhaldi og í ár. 

Margir hafa verið í haldi lögreglunnar á Suðurnesjum vegna fíkniefnamála. Áætlaðar eru tveggja milljarða framkvæmdir við fangelsið á Litla-Hrauni til að bregðast við þessum vanda, en þeim verður ekki lokið fyrr en í fyrsta lagi á næsta ári.

Jón segir mörg dæmi um að refsingar fyrnist vegna þess að ekki sé pláss í fangelsum.  „Við verðum að bregðast við þessu og það er allt í vinnslu hjá okkur,“ segir hann. 

Það hlýtur að taka tíma að bregðast við þessu - fjölga fangaklefum eða rýmum fyrir fanga? „Augljóslega. Og á meðan þurfum við að leysa málin með einhverjum hætti.“ Hvernig? „Það liggur ekki í augum uppi,“ segir Jón. „Þetta aukna álag kallar á mjög mikinn aukinn rekstrarkostnað og við höfum meira að segja verið í þeirri stöðu að ná ekki að fullnýta öll pláss af því að rekstrarfé hefur ekki dugað til þess.“

Þú segir að það hafi ekki verið hægt að fullnýta öll rými þannig að það hafi verið tómir fangaklefar þó að það hafi vissulega verið þörf fyrir þá vegna þess að það eru ekki til peningar til að reka fangelsin? „Nákvæmlega og það er það sem ég er að óska eftir að verði núna leyst með okkur.“

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir