200 gætu misst vinnuna hjá Iceland Seafood í Grimsby

21.11.2022 - 23:12
Mynd með færslu
 Mynd: Iceland Seafood International  - RÚV
Kórónuveirufaraldurinn og Brexit eru meðal þátta sem leiða til þess að frystihús í eigu Iceland Seafood í Grimsby virðist í andaslitrunum. Í fréttatilkynningu fyrirtækisins segir að rekstur frystihússins í Grimsby sé ekki lengur hagkvæmur, en Iceland Seafood tók við rekstri þess árið 2018.

Frystihúsið varð að fullu í eigu Iceland Seafood í mars 2020, rétt fyrir COVID-19 faraldurinn, segir í fréttatilkynningunni. Endurbygging og uppsetning á tækjum gekk seint vegna faraldursins og síðar Brexit, ásamt ýmsum erfiðleikum í framleiðsluferlinu öllu.

Á vef Guardian segir að sjávarútvegur hafi lengi vel aðeins gegnt litlu hlutverki í breska hagkerfinu. Hann sé þó mikilvægur mörgun sjávarbyggðum, þar sem atvinnuleysi hefur aukist með hnignun greinarinnar. Margir Brexit-sinnar og þingmenn sem töluðu fyrir því að endurreisa sjávarútveginn við útgönguna úr ESB leiddu til þess að byggðir við sjávarsíðuna greiddu margar hverjar atkvæði með Brexit. Nærri 70 prósent íbúa í Norðaustur Lincoln-skíri, sem Grimsby tilheyrir, greiddu atkvæði með útgöngu úr Evrópusambandinu. Með því vonuðust íbúarnir eftir vexti í sjávarútvegi.

Haft er eftir Bjarna Ármannssyni, framkvæmdastjóra Iceland Seafood, að fyrirtækið hafi ekki fengið nóg kælipláss. Fyrirtæki hafi nýtt kælipláss til þess að geyma birgðir ef útganga Breta úr Evrópusambandinu ætti eftir að valda einhverjum erfiðleikum. Þá hafi kórónuveirufaraldurinn valdið töfum á innflutningi á fiski frá Kína og Víetnam. Eins hafi aukin skriffinska sem fylgdi Brexit gert innflutning á fiski flóknari.

Um 200 vinna í frystihúsinu í Grimsby, og eiga þau nú öll á hættu að missa vinnuna.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV