Bretar afhenda Úkraínumönnum öflugan loftvarnabúnað

epa10314712 A handout photo made available by the Ukrainian Presidential Press Service shows Ukrainian President Volodymyr Zelensky (R) and Britain's Prime Minister Rishi Sunak (L) during a joint press conference following their meeting, in Kyiv (Kiev), Ukraine, 19 November 2022, amid Russia's invasion. Britain's Prime Minister Sunak made his first visit to Kyiv, where he pledged that the UK will continue to support Ukraine and to provide a new package of air defense to help protect civilians and critical national infrastructure from Russian strikes.  EPA-EFE/UKRAINIAN PRESIDENTIAL PRESS SERVICE HANDOUT -- MANDATORY CREDIT: UKRAINIAN PRESIDENTIAL PRESS SERVICE -- HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA-EFE - UKRAINE PRESIDENTIAL PRESS SERV
Forsætisráðherra Bretlands notaði fyrstu heimsókn sína til Úkraínu til að tilkynna um afhendingu búnaðar til loftvarna. Hann heitir því að Bretar standi við bakið á Úkraínumönnum uns sigur vinnst.

Þetta kom fram á sameiginlegum fundi þeirra Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands, og Volodymyrs Zelensky Úkraínuforseta í Kyiv í gær. Sunak sagði loftvarnakerfið um fimmtíu milljón punda virði og til þess gert að granda flugvélum og árásardrónum.

Auk þess útvega Bretar tugi ratsjáa en þetta er viðbót við þær þúsund loftvarnarflauga sem Ben Wallace, varnarmálaráðherra boðaði fyrr í vikunni. Sunak lofaði hugrekki Úkraínumanna sem hann sagði veita heiminum öllum innblástur.

Betur má ef duga skal

Zelensky sagði að vinátta Breta styrkti Úkraínumenn í þeirri trú að sigur sé mögulegur. Mykhaylo Podolyak, ráðgjafi forsetans, segir að þó þurfi að gera betur ef duga skuli. 

Hann segir afar brýnt í aðdraganda vetrar að Úkraína fái enn meiri hernaðaraðstoð. Nauðsynlegt sé að fá um það bil 150 til 200 skriðdreka, 300 brynvarin ökutæki og 100 stórskotaliðsvopn. Enn þurfi að þétta loftvarnirnar sömuleiðis, með byssum og eldflaugakerfum. 

Podolyak segir jafnframt að afkáralegt sé af hálfu vesturveldanna ætla sér að knýja fram friðarviðræður við Rússa. Bandarískir miðlar hafa greint frá þeim umleitunum sem Zelensky hefur hafnað nema Rússar hverfi á brott með herlið sitt.

„Þetta þýddi að ríkið sem smám saman er að endurheimta landsvæði, þurfi að gefast upp fyrir því sem er á undanhaldi,“ sagði Podolyak í samtali við AFP-fréttaveituna. 

Meintir stríðsglæpir til rannsóknar

Úkraínski herinn kveðst nú rannsaka sannleiksgildi myndskeiða sem gengið hafa á samfélagsmiðlum og sögð eru sýna þegar rússneskir hermenn eru teknir af lífi eftir að hafa gefist upp.

Rússar segja myndirnar augljóslega sýna stríðsglæpi framda. Talsmaður Sameinuðu þjóðanna segir myndskeiðin einnig til rannsóknar og að hinir seku verði látnir standa reikningsskil gjörða sinna.