Bensínsprengjum kastað í hús og hvatt til hefnda

20.11.2022 - 19:00
Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RUV
Lögregla hefur til rannsóknar hugsanlegar hefndaraðgerðir vegna árásarinnar á Bankastræti Club á fimmtudagskvöld. Rúður hafa verið brotnar, bensínsprengjum kastað inn í hús og fjölskyldur hinna grunuðu áreittar. 

Samfélagsmiðlar hafa einnig verið nýttir í þessum tilgangi, þar sem hvatt er til að hefnt sé fyrir árásina, Gengjastríð er eitt af því sem lögregla hefur til skoðunar í tengslum við árásina, þar sem þrír voru stungnir. 

Margeir Sveinsson aðstoðaryfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu staðfestir í samtali við fréttastofu að þetta sé til rannsóknar. Hann segir að sex hafi verið handteknir síðastliðinn sólarhring og að farið verði fram á gæsluvarðhald yfir að minnsta kosti þremur þeirra. 

.Níu hafa nú þegar verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald og um tíu manns er enn leitað. Þetta þýðir að róður fangelsanna er farinn að þyngjast, enda sjaldgæft að þau taki á móti svo mörgum föngum í sömu svipan. 

„Áætlanir okkar hafa engan veginn verið að gera ráð fyrir þetta stórum frávikum í rekstrinum, langt því frá,“ segir Halldór Valur Pálsson, forstöðumaður fangelsanna. 

„Við þurfum að endurhugsa alla okkar starfsemi, draga úr verkefnum og hægja á boðunum inn til afplánunar og í rauninni að lágmarka umfangið á öllum öðrum rekstri sem við getum. Því þetta er eitthvað sem við ráðum ekki við. Þegar menn eru dæmdir inn í gæsluvarðhald þá ber okkur bara að bregðast við því strax og þá þarf allt hitt bara að bíða.“ 

Þetta hafi þau áhrif að þeir sem þegar bíði afplánunar þurfi að bíða enn lengur. Sex hundruð manns eru á boðunarlista; þar af bíða 317 eftir að hefja afplánun í fangelsi og 86 í samfélagsþjónustu. 143 eru farnir úr landi og þá eru 54 ný mál á borði Fangelsismálastofnunar sem á eftir að vinna.  

Halldór segir að fangelsin ráði við álagið eins og sakir standi. Þó geti það orðið flókið ef um gengjastríð sé að ræða. 

„Þetta ógnar alveg öryggi starfsmanna og annarra fanga líka ef svona átök eru í gangi og ef það eru gengjaátök úti í samfélaginu þá rata þau líka út í fangelsin á endanum.“