Annað banaslysið tengt rafskútum hér á landi

20.11.2022 - 19:33
Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Ungur karlmaður á rafskútu lést í umferðarslysi í miðbæ Reykjavíkur í gærkvöld. Maðurinn lenti í árekstri við rútu. Þetta er annað banaslysið tengt rafskútum hér á landi.

Slysið varð á gatnamótum Barónsstígs og Grettisgötu á níunda tímanum í gærkvöld. Mikill viðbúnaður var á staðnum og girti lögregla svæðið af. Maðurinn var á þrítugsaldri og var á rafskútu þegar slysið varð. Komið var niðamyrkur.

Guðmundur Páll Jónsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu staðfestir við fréttastofu að maðurinn hafi verið erlendur og búsettur hér á landi. Hann virðist hafa keyrt á rafskútu inn í hlið hópferðarbifreiðar sem var á stærð við strætó og á lítilli ferð. 

Slysstaður rétt utan við bannsvæði 

Akstursbann hópbifreiða í ferðaþjónustu er í miðborginni. Slysið átti sér stað rétt fyrir utan bannsvæðið. Þrjátíu kílómetra hámarkshraði er á báðum götunum. Hvorki fást upplýsingar um úr hvaða átt rafskútunni né rútunni var ekið.

Þá fást heldur ekki upplýsingar um á vegum hvaða fyrirtækis rútan var eða hverjir í henni voru þegar slysið varð. Sautján farþegar hennar þáðu áfallahjálp hjá Rauða krossinum í gær. Minnst þrjú vitni til viðbótar hafa fengið aðstoð í dag. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar tildrög slyssins ásamt rannsóknarnefnd samgönguslysa. Hún hefur ekki veitt frekari upplýsingar um atvikið. 

Tvö banaslys með árs millibili

Þetta er annað banaslysið á rafskútu hér á landi. Fyrir ári, í nóvember í fyrra, lést maður á sextugsaldri í árekstri við létt bifhjól. Áreksturinn varð klukkan átta að morgni norðan við gatnamót Kringlumýrarbrautar og Sæbrautar. Rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur ekki skilað skýrslu um slysið.

Vottaði aðstandendum samúð sína á minningardegi um fórnarlömb umferðarslysa

Í dag er minningardagur um fórnarlömb umferðarslysa. Að því tilefni var komið saman við þyrlupall Landspítalans í Fossvogi. Athöfnin var lituð af fregnum af atviki gærdagsins en nú hafa átta látið lífið í umferðinni á þessu ári. 

„Ég vil nýta þetta tækifæri til að votta öllum aðstandendum samúð mína og ég veit að ykkur sem hér standið, ykkur líður eins,“ sagði Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar á athöfninni.