Þótt það hafi ekki verið birt og nokkrar útgáfur draganna séu raunar til skoðunar, er innahaldið þegar tekið að kvisast út.
Loftslagsráðherra Noregs segir að samkomulag hafi náðst um sérstakan bjargráðasjóð, sem hefur verið mjög til umræðu síðustu daga eftir að Evrópusambandið féllst á það óvænt á fimmtudag að styðja slíkan sjóð.
Sá á að færa fé frá þeim ríkjum sem losa mest til þeirra sem verða verst úti vegna áhrifa loftslagsbreytinga. Þá er einkum litið til eyríkja í Kyrrahafi, strandríkja og Afríkuríkja.
Evrópusambandið hefur lagt áherslu á að úr þessum sjóði eigi aðeins að renna til ríkja sem eru í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Stór ríki eins og Kína og Sádi-Arabía, sem losa mikið af gróðurhúsalofttegundum, eigi ekki að fá greitt úr sjóðnum heldur einmitt að leggja til hans.
Minna um beinharðar aðgerðir til að draga úr losun
Áherslan hefur mikið til verið á viðbragð við áhrifum loftslagsbreytinga, en minna hefur gengið í að setja á blað aðgerðir til að draga úr losun.
Guardian greinir frá því að í drögunum sé ekki kveðið á um með skýrum hætti að hætta þurfi brennslu jarðefnaeldsneytis. Þá virðist andstaða sumra ríkja hafa orðið til þess að ekki er í textanum að finna nein tímasett markmið um hvenær losun á heimsvísu á að ná hámarki – og í kjölfarið minnka.
Hér er nefnilega vert að hafa í huga í ljósi allrar umræðu um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda, að losun á heimsvísu hefur ekkert dregist saman heldur þvert á móti aukist ár frá ári þótt aðeins hafi hægst á aukningunni. Ætlunin er alltaf að hápunkturinn og í kjölfarið samdráttur sé rétt innan seilingar.
Enn er þó stefnt að því berum orðum að hitastig á jörðu hækki ekki um meira en 1,5 gráður frá því sem var fyrir iðnbyltingu, eins og ríki heims féllust á með sögulegu samkomulagi í París. Meðalhiti á jörðu hefur þegar hækkað um eina gráðu frá þeim tíma og þykir ljóst að markmiðið um eina og hálfa gráðu náist ekki nema með róttækum aðgerðum.