Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Útlit fyrir bjargráðasjóð en litlar beinharðar aðgerðir

19.11.2022 - 18:39
Innlent · COP27
epa10314532 German climate activist Luisa Neubauer (C) speaks during a demonstration encouraging world leaders to maintain policies that limit warming to 1.5 degrees Celsius since pre-industrial times and provide reparations for loss and damage at the 2022 United Nations Climate Change Conference (COP27), in Sharm El-Sheikh, Egypt, 19 November 2022. The 2022 United Nations Climate Change Conference (COP27), runs from 06 to 18 November, and is expected to host one of the largest number of participants in the annual global climate conference as over 40,000 estimated attendees, including heads of states and governments, civil society, media and other relevant stakeholders will attend. The events will include a Climate Implementation Summit, thematic days, flagship initiatives, and Green Zone activities engaging with climate and other global challenges.  EPA-EFE/SEDAT SUNA
Loftslagaðgerðasinnar hafa þrýst á ríki heims að sammælast um metnaðarfyllri markmið. Mynd: Sedat Suna - EPA
Samkomulag virðist í augsýn á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem hefur staðið í Egyptalandi síðustu tvær vikur. Drög að lokayfirlýsingu, sem öll þátttökuríki þurfa að fallast á, liggja fyrir og vonir eru bundnar við að hægt verði að undirrita samkomulagið síðar í kvöld. 

Þótt það hafi ekki verið birt og nokkrar útgáfur draganna séu raunar til skoðunar, er innahaldið þegar tekið að kvisast út.

Loftslagsráðherra Noregs segir að samkomulag hafi náðst um sérstakan bjargráðasjóð, sem hefur verið mjög til umræðu síðustu daga eftir að Evrópusambandið féllst á það óvænt á fimmtudag að styðja slíkan sjóð.

Sá á að færa fé frá þeim ríkjum sem losa mest til þeirra sem verða verst úti vegna áhrifa loftslagsbreytinga. Þá er einkum litið til eyríkja í Kyrrahafi, strandríkja og Afríkuríkja.

Evrópusambandið hefur lagt áherslu á að úr þessum sjóði eigi aðeins að renna til ríkja sem eru í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Stór ríki eins og Kína og Sádi-Arabía, sem losa mikið af gróðurhúsalofttegundum, eigi ekki að fá greitt úr sjóðnum heldur einmitt að leggja til hans. 

Minna um beinharðar aðgerðir til að draga úr losun

Áherslan hefur mikið til verið á viðbragð við áhrifum loftslagsbreytinga, en minna hefur gengið í að setja á blað aðgerðir til að draga úr losun.

Guardian greinir frá því að í drögunum sé ekki kveðið á um með skýrum hætti að hætta þurfi brennslu jarðefnaeldsneytis. Þá virðist andstaða sumra ríkja hafa orðið til þess að ekki er í textanum að finna nein tímasett markmið um hvenær losun á heimsvísu á að ná hámarki – og í kjölfarið minnka.

Hér er nefnilega vert að hafa í huga í ljósi allrar umræðu um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda, að losun á heimsvísu hefur ekkert dregist saman heldur þvert á móti aukist ár frá ári þótt aðeins hafi hægst á aukningunni. Ætlunin er alltaf að hápunkturinn og í kjölfarið samdráttur sé rétt innan seilingar.

Enn er þó stefnt að því berum orðum að hitastig á jörðu hækki ekki um meira en 1,5 gráður frá því sem var fyrir iðnbyltingu, eins og ríki heims féllust á með sögulegu samkomulagi í París. Meðalhiti á jörðu hefur þegar hækkað um eina gráðu frá þeim tíma og þykir ljóst að markmiðið um eina og hálfa gráðu náist ekki nema með róttækum aðgerðum.

alexanderk's picture
Alexander Kristjánsson