RÚV ætti að sniðganga HM í Katar

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - Fréttir
RÚV ætti að sniðganga HM karla í Katar, segir Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata. Hún var gestur í Vikulokunum á Rás 1 í morgun þar sem heimsmeistaramótið var til umræðu.

Arndís segir það misskilning að minni þjóðir eins og Ísland geti ekki haft áhrif. Það hefði haft mikil áhrif ef Ísland hefði sniðgengið mótið og ekki sýnt frá því. 

„Það sem er kannski var fyrirsjáanlegast í þessari umræðu en hefur ekki fengið jafnmikinn hljómgrunn og oft áður, er þessi krafa um að það sé ekki verið að blanda pólitík í fótboltann. En það sem ég held að fólk sé almennt að vakna til vitundar um er að allt sem við gerum í rauninni er pólitískt. Og það er ekki þannig þegar kemur að mannréttindabrotum að það sé hópur sem er hlynntur mannréttindabrotum og hópur sem er á móti heldur erum við með einstaklinga sem berjast gegn þeim og þá sem horfa í hina áttina. Það eru þessir tveir hópar og í hvorum hópnum ætlum við að vera? Að mínu mati er ekki spurning að við eigum að sniðganga þessa keppni og RÚV á að sniðganga þetta,“ sagði Arndís Anna.

Hér að neðan má hlusta á Vikulokin frá í morgun. Þar voru auk Arndísar þeir Eyjólfur Ármannsson, þingmaður Flokks fólksins, og Friðjón R. Friðjónsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Þátturinn hófst á líflegri umræðu um skýrslu Ríkisendurskoðanda um sölu Íslandsbanka. Að henni lokinni barst talið að Donald Trump og þá HM í Katar.

Subway hættir við auglýsingar

Skúli Gunnar Sigfússon, framkvæmdastjóri Subway á Íslandi, segir í fréttatilkynningu að félagið sé hætt við að auglýsa á RÚV í tengslum við HM í Katar. 

„Félagið telur sig hafa gert mistök með því að ætla að auglýsa í tengslum við viðburðinn og biðst afsökunar á því,“ segir í tilkynningunni.

Þeirri einu og hálfu milljón króna, sem félagið ætlaði að verja í auglýsingar, verður þess í stað veitt til Geðhjálpar og forvarnarsamtakanna Píeta.