Níu í gæsluvarðhald - tveir taldir hafa flúið land

19.11.2022 - 18:41
Bankastræti club árás
 Mynd: Grímur Jón - RÚV
Tveir menn sem grunaðir eru um aðild að hópárásinni á skemmtistað í miðbæ Reykjavíkur á fimmtudagskvöld eru farnir úr landi og enn er ríflega tíu manns leitað. Níu hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald, síðast fjórir nú undir kvöld. 

Þrír voru stungnir af hópi manna sem ruddist inn á skemmtistaðinn Bankastræti Club laust fyrir miðnætti í fyrrakvöld. Hópurinn taldi hátt í þrjátíu manns, sem allir voru dökkklæddir með grímu fyrir vitum sér. Búið er að handtaka fjórtán úr þeirra hópi, flesta karlmenn og tvær konur. Yfir tíu er enn leitað en lögregla telur sig vita hverjir þeir eru. 

Fimm voru úrskurðaðir í eins og tveggja vikna gæsluvarðhald í gær. Fjórir til viðbótar voru leiddir fyrir dómara seinnipartinn í dag þar þeir voru úrskurðaðir í tveggja vikna gæsluvarðhald.

Heimildir fréttastofu herma að að minnsta kosti tveir hinna grunuðu hafi flúið land. Lögregla hefur skorað á alla hlutaðeigandi að gefa sig fram en aðeins einn tók þeirri áskorun. Þá vinnur lögregla að því að fara í gegnum símagögn allra, sem samkvæmt upplýsingum er afar umfangsmikið verkefni. 
 

Bankastræti club árás, gæsluvarðhald
 Mynd: Grímur Jón - RÚV
Fjórir menn voru leiddir fyrir dómara síðdegis í dag.

Mennirnir sem voru stungnir hafa sjálfir birt færslur á samfélagsmiðlum þar sem þeir segjast rólegir yfir atburðunum. Þá sögðu tveir þeirra í viðtali á FM957 í dag  að annar hefði verið stunginn sjö sinnum, en liði samt vel miðað við aðstæður, eða eins og kóngi, eins og hann orðaði það. 

Lögreglan segir góðan gang í rannsókninni miðað við umfang hennar. Meðal þess sem er verið að skoða er hvort um einhvers konar gengjastríð sé að ræða, en talið er að íkveikja í tveimur mótorhjólum við Álftamýri á miðvikudagskvöld tengist málinu. Íbúar þar í hverfinu sem fréttastofa ræddi við sögðu hjólin hafa staðið í ljósum logum og enn má sjá brunarústirnar á bílaplaninu. 

Leitað hefur verið til lögregluembætta utan höfuðborgarsvæðisins þar sem grunur leikur á að einhverjir þeirra sem lögreglan leitar hafi flúið úr borginni.