Ferðaskilríki í kortaformi væntanleg

Mynd með færslu
Nafnskírteini dagsins í dag eru ekki upp á marga fiska. Og teljast ekki ferðaskilríki. Myndin er úr safni Andrésar Inga Jónssonar þingmanns, sem hefur látið sig málið varða. Mynd: Andrés Ingi Jónsson
Ferðaskilríki í kortaformi verða tekin upp hér á landi á næstunni nái breytingar á lögum um nafnskírteini fram að ganga. Með lögunum yrðu nafnskírteini uppfærð í samræmi við kröfur Evrópusambandsins og gætu þar með nýst í stað vegabréfs á ferðalögum innan Evrópska efnahagssvæðisins og raunar víðar.

Nafnskírteini hafa verið gefin út á Íslandi síðan 1965, en óhætt er að segja að þau njóti lítilla vinsælda. Skilríkin, eins og þau eru í dag, eru ekki ferðaskilríki, enda staðfesta þau ekki ríkisborgararétt handhafa og nær engar öryggiskröfur eru gerðar til þeirra. Því er lítill sem enginn tilgangur með þeim, nema fyrir þá sem ekki eiga ökuskírteini.

Ísland er eina ríki Evrópska efnahagssvæðisins sem ekki gefur út ferðaskilríki í kortaformi (id-kort). En til stendur að breyta því, sem fyrr segir. Í fyrra tók gildi Evrópureglugerð um samræmda útgáfu þessara skilríkja, með sams konar hætti og útgáfa ökuskírteina er samræmd. Væntanlegt frumvarp dómsmálaráðherra er innleiðing á þessari reglugerð.

Í þessu felst töluvert hagræði fyrir fólk sem ferðast oft yfir landamæri, sem eiga að heita opin en sæta þó stundum tímabundinni landamæravörslu – til dæmis landamæri Svíþjóðar og Danmerkur um Eyrarsund, eða vilja af öðrum ástæðum geta staðfest þjóðerni sitt án þess að þurfa að bera vegabréf.

Morgunblaðið hefur eftir Sif Kröyer, fagstjóra hjá Þjóðskrá Íslands, að þegar sé búið að kaupa nauðsynlegan búnað í nýju kortin, eins og örgjörva. Ekki er þó enn búið að hanna kortin.

Mynd með færslu
 Mynd: Franska innanríkisráðuneytið
Svona líta nafnskírteinin út í Frakklandi.