Alvarlegt slys á Barónsstíg

Lögreglumaður í skærgrænu vesti stendur fyrir framan gulan lokunarborða sem strengdur hefur verið þvert yfir Grettisgötu. Að baki honum eru slökkvibíll og sjúkraflutningabíll með blá neyðarljós.
 Mynd: Alexander Kristjánsson - RÚV
Lögregla og slökkvilið höfðu mikinn viðbúnað á Barónsstíg í miðbæ Reykjavíkur um klukkan átta í kvöld, þar sem varð alvarlegt slys. Varðstjóri í umferðardeild lögreglu segir að ekið hafi verið á vegfaranda.

 

Slysið var alvarlegt hefur Fréttablaðið eftir Aðalsteini Guðmundssyni, varðstjóra í umferðardeild lögreglunnar. Hann segir einn hafa verið fluttan á brott með sjúkrabí. 

Barónsstíg var lokað fyrir allri umferð og gangandi vegfarendum ekki hleypt nærri slysstað. Varðstjóri slökkviliðs vildi ekkert tjá sig um slysið og taldi líklegt að tilkynningar væri að vænta frá lögreglunni. 

Ekki hefur endanlega fengist úr því skorið hvers eðlis slysið var en dælubíll slökkviliðs fór á vettvang ásamt sjúkrabíl, lögreglubílum og lögregluhjólum.

Fréttin var uppfærð klukkan 23:57.

 

oddurth's picture
Oddur Þórðarson
Fréttastofa RÚV