„Öllu jarðbundnara en lýst er í sjónvarpsþáttum“

Mynd: RÚV / RÚV
„Þetta er bara venjuleg vinna og öllu hefðbundnari en sú mynd sem dregin er upp í sakamálaþáttum í sjónvarpi.“ Þetta segja tveir íslenskir réttarlæknar, Pétur Guðmann Guðmannsson og Snjólaug Níelsdóttir, sem Kastljós hitti á dögunum. Allar krufningar, og í auknum mæli áverkarannsóknir, eru á þeirra borði.

Krufningum hefur fjölgað hér á landi síðustu ár og er hlutfall þeirra mun hærra hér á landi en í Danmörku, þar sem fæstir eru krufðir á öllum Norðurlöndunum. Þetta kemur fram í meistaraverkefni Söru Jóhannsdóttur í réttarvísindum við Háskólann í Uppsölum.

Sara rannsakaði og tók saman gögn um allar krufningar sem gerðar voru á Íslandi á árunum 2011 til 2020. Það ár voru krufningarnar orðnar 265 eða 11,5 prósent allra dauðsfalla. Samkvæmt lögum ákveður lögreglan hvenær krufning skuli gerð.

Hátt hlutfall krufninga hér á landi skýrist ekki af því að hér séu framdir fleiri glæpir eða að fleiri grunsamleg dauðsföll verði. Á þessu tímabili töldust 92,7 prósent dauðsfalla ekki grunsamleg og aðeins 2,8 prósent voru flokkuð grunsamleg.

„Við viljum bara vita af hverju fólkið deyr“

Pétur Guðmann Guðmannsson réttarlæknir segir að krufningar séu venjulega gerðar þegar dauðsfall er skyndilegt og óvænt. Stundum liggi í augum uppi hvað gerðist, til dæmis í umferðarslysum, en í öðrum tilfellum detti manneskjan niður dáin án fyrirvara og enginn viti hvað raunverulega gerðist. „Það er mjög breitt bil þarna á milli, þetta eru alls konar tilfelli. Það er vandamálið sem við erum að fást við, ekki spurningin er þetta manndráp? Það er ekki meginforsenda þess að gera réttarkrufningu, við viljum bara vita af hverju fólkið deyr.“

Þegar Pétur Guðmann flutti heim frá Svíþjóð og tók við réttarmeinafræðinni á Landspítalanum árið 2018 markaði það tímamót því að hann var fyrsti Íslendingurinn í hátt í tuttugu ár til að starfa hér við krufningar.

Öll sem fremja sjálfsvíg á Íslandi krufin

Um árabil gekk erfiðlega að manna stöður réttarlæknis og vandinn var leystur með tímabundnum ráðningum erlendra réttarmeinafræðinga. Aðstæður hafa breyst til hins betra og í haust fékkst leyfi til að hefja sérnám í réttarmeinafræði á Landspítala. Læknanemar geta því tekið fyrstu átján mánuði námsins hér heima.

Mikilvægur liðsauki barst einnig árið 2020 þegar Snjólaug Níelsdóttir, réttarlæknir, var ráðin í hlutastarf en hún starfar einnig í Danmörku. Þar eru mun færri krufðir enda segja dönsk lög að sleppa megi krufningu ef dauðsfall tekst ekki grunsamlegt. Á Íslandi eru öll sem fremja sjálfsvíg krufin en í Danmörku aðeins um 20%.

Enginn drungi eða eilíft dimmt ský

En hvað vitum við um krufningar? Helsta innsýn almennings í starf réttarlækna kemur líklega helst úr sakamálaþáttum í sjónvarpi þar sem réttarmeinafræði er stór hluti af því að leysa gátuna á bak við meintan glæp. Hafa bíómyndir og sjónvarpsþættir hugsanlega gefið fólki ranghugmyndir um starf réttarlækna?

Pétur segir að ólíkt því sem birtist í sjónvarpsþáttum sé ekki eilíft dimmt ský yfir þeim í vinnunni, drungi og rigning og að gátur sæki ekki á þau þegar þau leggjast til svefns. „Þetta er bara vinna, virkilega skemmtileg finnst mér,“ segir hann. „Að svara spurningum og vinna í höndunum í dagsljósinu hér með fínu fólki, það er bara þannig sem það er.“

Snjólaug tekur undir. „Þetta er öllu jarðbundnara en lýst er í sjónvarpsþáttunum. Svo er munur á hvort þú ert að horfa á ameríska þætti eða norræna þætti. Það er aðeins blæbrigðamunur þarna á.“

Getur tekið allan daginn þegar mikið er í húfi

Árið 2020 voru að meðaltali gerðar fimm krufningar í hverri vinnuviku en nokkur munur getur verið á milli vikna. Pétur Guðmann segir að hefðbundin krufning taki um það bil eina og hálfa til tvær klukkustundir en sum tilvik kalli á mun meiri vinnu.

„Krufning getur tekið rosalega langan tíma. Flóknari tilfelli, þar sem það er mikið í húfi, þá getur maður verið allan daginn, allan næsta dag og jafnvel lengur með eitt tilfelli. Þannig að það er kannski efra þakið á því, það er að það spanni fáeina daga.“

Getur verið afdrifaríkt það sem sagt er í slíkum skýrslum

Af öllum þeim krufningum sem gerðar eru hér á landi teljast aðeins um 10 til 15 stór mál og krefjandi og þau vinna Pétur og Snjólaug alltaf saman.

„Við setjum málið á annan stall ef um er að ræða til dæmis manndráp eða eitthvað sem gæti verið manndráp. Ef það er grunur um það,“ segir Pétur.

„Þá gerum við svokallaða útvíkkaða réttarkrufningu og þá erum við alltaf tveir réttarlæknar að sjá um það, einn er í fronti og hinn meira til að halda utan um og vera annað par af augum og svona. Svo klárum við lokaniðurstöðu í því alltaf saman. Þetta teljum við bara vera gæðaauka í þessum málum sem er þörf á. Það getur verið mjög afdrifaríkt sem maður segir í svoleiðis skýrslum.“

Í rannsókn Söru Jóhannsdóttur kemur fram að flestir, eða 46,4%, létust af náttúrulegum orsökum, 22,4 af völdum slysa, 20% af völdum sjálfsvíga, dánarorsök fannst ekki í um 10 prósentum tilfella og eitt prósent voru staðfest morð.

Það sem helst breyttist við krufningu var að dánarorsök var oftar náttúruleg en talið var og tíðni slysa og sjálfsvíga hækkaði sömuleiðis. Algengasta dánarorsökin var hjartasjúkdómar eða 30% allra tilfella.

Eirtanir algengasta ónáttúrulega dánarorsökin

Athygli vekur að eitranir reyndust langalgengasta ónáttúrulega dánarorsökin sem skráð var í réttarkrufningum á þessu tímabili, eða 20% heildartilvika.

Flestar voru af völdum blandaðrar eitrunar þar sem fleiri en eitt efni eða lyf komu við sögu. Næstalgengust var eitrun vegna ópíóíða og því næst eitrun af völdum etanóls, eða alkóhólneyslu.

Í rannsókninni kemur fram að fleiri karlmenn eru krufðir. Það eru 72 prósent tilfella en konur aðeins 28 prósent. Þetta hlutfall er vel þekkt í vestrænum ríkjum og á sér ýmsar skýringar.

„Þetta er eitthvað sem venst“

Algengasta spurningin sem réttarlæknar fá um starfið er hvort það sé ekki erfitt að vinna með látið fólk því þótt dauðinn sé hluti af lífinu er hann sveipaður mikilli sorg og erfiðleikum.

Þau hafa oft verið spurð hvort þau dreymi illa og fái martraðir vegna atvinnu sinnar. Svo sé ekki. „Þetta er eitthvað sem venst,“ segir Pétur. „Og ég held að ef manni takist að hafa þann vinkil að horfa bara á tilfellið sem áhugaverða áskorun, sem þau eru eiginlega alltaf, þá er maður bara staddur með hugann við það.“ Það er sjaldan sem þau verða upptekin af því hve dapurlegt tilfellið sé, „sem þau eru vissulega og skapa gríðarlega sorg í kringum sig. Maður veit það og maður skilur það mjög vel en hún nær samt ekki hingað sko.“

Snjólaug segir þau séu mjög meðvituð um að þeim sé falið að svara hinum ýmsu spurningum frá bæði lögreglu og ástvinum um dánarorsök. „Ég held að það sé mikilvægt starf okkar að reyna að reyna að miðla þeim upplýsingum á góðan og fallegan hátt til fólks.“

„Fólk grætur og maður klökknar“

Aðspurð hvort samskipti við aðstandendur geti verið erfið svarar Snjólaug því bæði játandi og neitandi.

„Yfirleitt í þessum erfiðu samtölum, sem maður vissulega á með aðstandendum, finnur maður líka alltaf létti og þakklæti frá aðstandendum. Að fá einhverja vissu um að dauðsfallið,“ segir hún. „Ég held að það skipti máli fyrir fólk að geta haldið áfram sorgarferlinu og lokið sorgarferlinu. Það getur alveg tekið á að tala við aðstandendur og fólk grætur og maður klökknar en þetta er ekkert erfitt, er ekkert myrkur.“

Þáttur réttarlækna við rannsókn sakamála er mikilvægur. Mat þeirra, niðurstöður og skýrslur eru lagðar fyrir dómstóla. Samstarf við lögreglu er töluvert í alvarlegustu málunum.

Fólk að vakna til meðvitundar um möguleikann

Frá því að Pétur Guðmann kom til starfa hefur áverkarannsóknum á lifandi fólki, sem er svokölluð klínísk réttarlæknisfræði, fjölgað umtalsvert og nú eru þessi tilfelli orðin 40-50 á hverju ári. „Ég veit ekki hvort sjálfum ofbeldistilfellunum er endilega að fjölga en við fáum aðeins meira til okkar því það er kannski að vakna til meðvitundar hjá réttarkerfinu að við fyrirfinnumst og bjóðum upp á þetta,“ segir hann að lokum.

Rakel Þorbergsdóttir ræddi við Pétur Guðmann Guðmannsson og Snjólaugu Níelsdóttur í Kastljósi.