„Horfi ekki á svona sirkus, mér finnst það fáránlegt“

Mynd: RÚV / RÚV

„Horfi ekki á svona sirkus, mér finnst það fáránlegt“

18.11.2022 - 09:56

Höfundar

„Af hverju að hleypa þeim inn til að henda þeim aftur út, og hvað þá óléttum konum sko eða fólki í hjólastól?“ spyr rapparinn Bassi Maraj sem fylgist lítið með stjórnmálum en gagnrýnir brottflutning hælisleitenda. Hann efast um heilindi íslenskra stjórnmálamanna og sumir þeirra hafa fengið á baukinn frá honum, bæði á samfélagsmiðlum og á nýrri plötu hans.

Rapparinn og raunveruleikastjarnan Bassi Maraj heitir réttu nafni Sigurjón Baltasar Vilhjálmsson og er úr Grafarvoginum. Frægðarsól hans hefur risið síðan hann birtist fyrst í raunveruleikaþáttunum Æði árið 2020 og nú skín hún sem aldrei fyrr. Hann hefur verið að gera það gott sem rappari og auk þess hefur hispurslaus framganga hans á samfélagsmiðlum vakið athygli.

Bassi sendi nýverið frá sér plötuna Fake Bitch þar sem hann er bersögull um rekkjuferðir sínar og mærir sjálfan sig í hástert, en er líka pólitískur og gagnrýninn á stjórnvöld.

Fengu bágt fyrir að óska ekki til hamingju með afmælið

Í titillagi plötunnar, FAKE BITCH, bregður fyrir félögum hans í Æði, þeim Patreki Jaime og Binna Glee. Þeirri reynslu lýsir Bassi sem „ógeðslega skemmtilegri.“

Í byrjun lags má heyra símtal þar sem kona lýsir félögunum öllum þremur sem „fölskum tíkum“ því þeir hafi ekki óskað henni til hamingju með afmælið. Konan, sem er vinkona Æði-drengjanna, var alls ekki sátt og efaðist um heilindi þeirra fyrst þeir létu ósagt að hún ætti afmæli.

Uppátækið kætti Bassa sem er alltaf til í drama. Hann tók þá ákvörðun að nýta sér upphlaupið í sköpun og nú má heyra á plötunni hvernig vinkonan úthúðar Æði-genginu.  „Ég ákvað að sampla það og svo var ég bara, vá hvað það væri gaman að fá Binna og Patta líka.“ Þá voru þeir orðnir þrír.

Lagið fjallar um baktal og drama, sem er eitthvað sem tengist raunveruleikasjónvarpsmenningu. Bassi segir að það geti sannarlega verið grunnt á dramanu en það bitni oftast ekki á honum. Svo kann hann líka oft að meta þegar hrist er upp í hlutunum með baktali eða rifrildi. „Það er alltaf gaman að starta beefi og vera petty fake bitch. Það er ógeðslega gaman að hringja og slúðra.“

„Út með þennan homma“

Það var mikill léttir að gefa út plötuna, segir Bassi, enda hafi ferlið verið afar langt. „Að taka plötuna sjálfa upp tók svona hálft ár en svo er eftirvinnslan búin að vera svona eitt og hálft. Ég er búinn að sitja í þessu ógeðslega lengi.“

Plötuna vinnur Bassi að miklu leyti með Marteini Hjartarsyni sem kallar sig Banger boy og er einn afkastamesti íslenski pródúserinn í poppheiminum um þessar mundir. Bassi segir að kynni þeirra hafi fyrst ekki lofað góðu.

„Fyrst þegar ég kom til hans var ég alveg: úff hann er bara út með þennan homma úr þessu stúdíói,“ segir Bassi. En tilfinning hans átti eftir að breytast. „Einhvern veginn urðum við mega góðir vinir. Það er æðislegt að vinna með honum.“

Sjokk yfir hvað Sigga Beinteins væri lítil

Í heild hefur ferlið verið skemmtilegt og Bassa langar að halda áfram að gera tónlist, en ekki endilega bara rapp. „Mig langar að gera öðruvísi tónlist líka, bara að syngja því ég er söngvari og fólk veit það ekkert.“

Og Bassa langar að vinna með öðrum íslenskum tónlistarmönnum; efst á óskalistanum er samvinna með GDRN eða Siggu Beinteins. „Ég elska Siggu Beinteins, ég er bara guð minn almáttugur,“ segir Bassi um þeirra kynni. „Þegar ég hitti hana í fyrsta skipti var ég í sjokki yfir hvað hún er lítil. Hún er pínulítil og algjört partí, ógeðslega gaman að vera ógeðslega mikið með henni.“

Langar að verða betri í taílensku

Bassi blandar mikið saman ensku og íslensku á plötunni, og í daglegu tali, en hann er líka ágætlega að sér í taílensku. Það má heyra brot af taílenskukunnáttu hans á plötunni líka. „Ég get alveg reddað mér en mig langar að læra meira,“ segir Bassi sem á taílenska ömmu, hefur tvisvar heimsótt landið og langar aftur.

Engir fordómar þó hann rappi um kynlíf með körlum

Sem fyrr segir rappar Bassi, eins og margir kollegar hans, mikið um kynlíf. Öfugt við flesta karlkyns kollega hans rappar hann þó ekki um brjóst og kynfæri kvenna heldur lýsir hann kynlífi með karlmönnum á myndrænan hátt, enda er Bassi samkynhneigður.

Hann segir að það hafi aldrei aftrað sér í sköpuninni og hann finnur ekki fyrir fordómum. „Nei ekki neitt, ekki einu sinni daglegu lífi,“ segir Bassi sem bætir því við að það hafi jafnvel komið sér á óvart að þurfa ekki að verja sig enda var hann tilbúinn í orðaskak. „Ég var alveg tilbúinn í beef, ég er alveg með þetta,“ segir Bassi sem þarf að bíða betra færis hvað það varðar.

Frægðin stundum kvíðavaldandi

Þótt frægðin og bransinn taki pláss í lífi Bassa lifir hann líka hefðbundnu lífi þess á milli með sínum nánustu. Hann tekur stundum vaktir á Hrafnistu þar sem hann starfar í umönnun og fer á hverjum degi í göngutúr með hundana sína, Tímon og Púmba, í Paradísardal.

Viðbrigðin segir hann góð en frægðin getur líka tekið á. „Það er low key bara meira kvíðavaldandi en ég myndi halda. Ég fékk bara félagskvíða eftir það en annars hefur ekkert mikið breyst.“

Bað Bjarna um handtösku fyrir Panama-peningana

Þegar minnst er á Bassa rifja margir upp fjaðrafokið sem orðaskak hans við þá Bjarna Benediktsson og Hannes Hólmstein á Twitter olli fyrir rúmu ári.

Eftirminnilega kvaðst Bassi í stöðuuppfærslu vera svo hugmyndaríkur að hann ætti að koma með hugmyndir fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Bjarni Benediktsson sá færsluna og skrifaði í athugasemd að allar hugmyndir væru vel þegnar.

Fæstir áttu von á viðbrögðum Bassa og allt ætlaði um koll að keyra. Hann vitnar þar meðal annars í einn af sínum eftirlætis tónlistarmönnum, Nicki Minaj, þegar hann skrifar:

„Flestir í pólitík mega low key fokka sér“

Hannes Hólmsteinn blandaði sér í málið og sitt sýndist hverjum um hinn kjaftfora unga mann, margir lofuðu hugrekkið á meðan öðrum fannst hann ganga of langt.

Aðspurður um áhuga sinn á og afskipti af pólitík segir Bassi að hann sé alveg til í að vera vinur stjórnmálamanna en bætir svo við: „En mér finnst flestir í pólitík megi low key fokka sér. Það er ekki ein manneskja sem er ekki að gera þetta fyrir sjálfa sig, for money sko.“

Og hann segist sjálfur ekki fylgjast mikið með stjórnmálum. „Ég horfi ekki á svona sirkús, mér finnst það fáránlegt.“

En hann hefur þó skoðun á ýmsum þeim málum sem hafa verið í umræðunni upp á síðkastið. Mikið hefur verið rætt um brottflutning hælisleitenda síðustu daga og Bassa finnst pottur brotinn í þeim efnum. „Af hverju að hleypa þeim inn til að henda þeim aftur út, og hvað þá óléttum konum sko eða fólki í hjólastól?“ spyr hann. 

Lóa Björk Björnsdóttir ræddi við Bassa Maraj í Lestinni á Rás 1.

Tengdar fréttir

Menningarefni

„Ég get staðfest að þessi samskipti eru ekki til“

Sjónvarp

Akkúrat passlega mikið „beef“ fyrir fólk á ketó