Grenivíkurvegur enn lokaður - staðan metin í dag

Mynd með færslu
 Mynd: Sölvi Andrason - RÚV
Sérfræðingur frá Veðurstofunni og lögreglan á Norðurlandi eystra hafa í morgun metið aðstæður á veginum til Grenivíkur við Eyjafjörð þar sem aurskriða féll í gær. Vegurinn er lokaður.

Það var á sjötta tímanum í gærmorgun að tilkynning barst um að stór aurskriða hefði fallið á Grenivíkurveg, við Hraná skammt sunnan við bæinn Fagrabæ. Ökumenn tveggja bíla óku inn í skriðuna í myrkrinu, en engan sakaði. Vegurinn er enn lokaður og ekki talið óhætt að fara um skriðusvæðið vegna hættu á frekari skriðuföllum.

Mynda skriðusárið með dróna

Í morgun hefur sérfræðingur frá ofanflóðavakt Veðurstofunnar, ásamt lögreglumönnum frá Akureyri, safnað gögnum til að meta framhaldið. Lögreglan hefur myndað skriðuna og nágrenni hennar með dróna, en þær myndir verða bornar saman við myndir sem teknar voru á sömu slóðum í gær. Þannig á að meta ástandið og hvort frekari hætta er á aurskriðum þarna.

Hjáleið um Dalsmynni

Líklegt er talið að þessi vinna taki nokkurn tíma og beðið verður eftir niðurstöðum áður en ákveðið er hvort hleypa eigi umferð inn á svæðið eða opna Grenivíkurveg. Á meðan vegurinn er lokaður er hægt að fara hjáleið um Dalsmynni.