Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Sviðsljós fjölmiðla beinist að Katar næstu vikur

17.11.2022 - 18:59
Mynd: EPA / EPA
Stærsti íþróttaviðburður heims er handan við hornið. Á sunnudag verður flautað til leiks á Heimsmeistaramóti karla í fótbolta í Katar. Gestgjafarnir eru umdeildir. Mannréttindi og aðbúnaður fólks sem reisti gríðarstóra leikvanga hafa verið í brennidepli. 

Og nú streyma lið og fylgdarlið til olíuríkisins og því fylgir fjölmiðlafólk alls staðar að úr veröldinni. Og þá verða árekstrar. Frelsi fjölmiðla í landinu er ekki mikið. Á lista Samtaka blaðamanna án landamæra yfir frelsi fjölmiðla situr Katar í  sæti 110.  

Vilja stýra umfjöllun um Katar

Fjölmiðlafólki sem sækir landið heim þessa dagana er sniðinn stakkur eftir hentisemi yfirvalda í Katar, til að mynda var fréttamönnum TV2 í Danmörku meinað að mynda á ákveðnum stöðum og reynt að koma í veg fyrir beina útsendingu þeirra nema undir ströngu eftirliti. Rasmus Tandholt fréttamaður TV2 segir að það sé greinilega ótti meðal yfirvalda að fjölmiðlar sýni ástandið í landinu með þeim hætti sem ekki hugnast stjórnvöldum. 

Óhreinn þvottur um allt

 

Tandholt segir að það sé greinilega talsvert af óhreinum þvotti í kjallaranum sem ekki megi koma fyrir augu almennings. Það sé ekki vilji yfirvalda að fjölmiðlafólk tali við minnihlutahópa eins og samkynhneigða og fleiri. Það sé vilji Katara að sýna frá fótboltaveislu, allt sé gott og blessað, engin vandamál að sjá og störf fjölmiðla þurfi að vera eftir þeirra höfði. Bendir hann á að Katarar séu ekki vanir því að fjölmiðlar séu með tilskilin leyfi og réttindi, og það brjótist fram í að hóta að brjóta myndavélar og hindra þeirra störf. Yfirvöld hafa beðið Tandholt afsökunar á atvikunu. 

Handteknir fyrir að snuðra

Og dæmin eru fleiri. Fyrir um ári síðan voru fréttamenn norska ríkissjónvarpsins handteknir í kjölfar þess að þeir fóru inn á byggingasvæði leikvangs og ræddu við verkamenn um aðbúnað þeirra. Þeir fengu leyfi verkstjóra til að ræða við verkamenn en eftir að hafa snúið aftur heim á hótelið voru þeir handteknir.  

Fjallað var um málið í Speglinum. Heyra má pistilinn hér að ofan þar sem rætt er við Halvor Ekeland, fréttamann NRK, og Eddu Sif Pálsdóttur, íþróttafréttamann sem er á leið til Katar. Einnig má heyra brot úr útsendingu TV2 þar sem öryggisverðir reyna að hindra útsendingu.