Iðnaðarhampur stöðvaður í tolli og ræktun í uppnámi

17.11.2022 - 17:20
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Tollurinn stöðvaði innflutning á hráum iðnaðarhampi til landsins með vísan í lög um ávana og fíkniefni. Matvælastofnun telur að ekki sé til staðar heimild til að nýta lauf og blöð iðnaðarhamps sem ræktaður er hér á landi í matvæli. Formaður hampfélagsins segir þetta setja ræktunina í uppnám.

Fyrirtæki hugðist flytja inn samskonar iðnaðarhamp og ræktaður er á Íslandi til að mæta umframeftirspurn. Iðnaðarhampur inniheldur ekki vímuefnið THC sem finna má í kannabis heldur aðeins annað efni sem er eftirsótt til fæðubótar. Hampurinn var sendur frá Póllandi en var stöðvaður í tollinum og í samráði við Matvælastofnun var innflutningurinn bannaður. 

Þegar Hampfélagið blandaði sér í málið fengust þau svör hjá MAST að einungis mætti flytja inn fræ iðnaðarhamps og þau ein mætti nýta í matvæli. Lauf og blóm iðnaðarhamps væru til skoðunar hjá Evrópusambandinu og yrðu mögulega skilgreind sem svokallað nýfæði sem þyrfti þá að sanna að væri ekki skaðlegt. 

Sigurður Hólmar Jóhannesson, formaður Hampfélagsins, segir að hampte úr laufum og blómum plöntunar hafi verið selt lengi í Evrópu með undanþágum og afstaða Matvælastofnunar komi á óvart. „Þetta er skrítin afstaða sem þeir eru að taka núna og svolítið hörð. Af því að núna er vitað að það er búið að selja hampte á Íslandi í yfir 50 verslunum um land allt síðustu tvö árin. Þannig að það er svolítið skrítið að allt í einu núna ætli þeir að fara að taka harðar á þessu,“ segir Sigurður. 

Hampfélagið bíður eftir fundi með matvælaráðherra enda talsvert í húfi. „Hingað til hefur ábatasamasti partur plöntunnar verið laufin og blómin. Þannig að þetta setur uppskeru næsta árs og síðasta sumars í smá uppnám,“ segir Sigurður Hólmar Jóhannesson, formaður Hampfélagsins.

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV