Hringdu í mig á morgun

Mynd: Músíktilraunir / Kolbrún Óskarsdóttir

Hringdu í mig á morgun

17.11.2022 - 18:25

Höfundar

Það er unga fólkið sem tekur sviðið og er í aðalhlutverki í Undiröldu kvöldsins á Rás 2 þar sem er boðið upp á nýja tónlist frá Kusk og Óvita, Lottó, Andra Má, Gugusar, Dodda ásamt N3dek, Linusi Orra og Helgu Dýrfinnu.

Kusk x Óviti - Morgun

Kolbrún Óskarsdóttir, eða KUSK, er 19 ára tónlistarkona, pródúser og lagahöfundur sem vann Músíktilraunir fyrr á árinu. Undanfarið hefur hún spilað víðs vegar um landið og kom fram á Airwaves hátíðinni í byrjun nóvember. Fyrsta plata hennar heitir Skvaldur og þar er að finna lag hennar Morgun sem hún gerir með Óvita.


Lottó - Call Me

Tónlistarmaðurinn Ólafur Daði Eggertsson hefur sent frá sér lagið Call Me sem er hans annað lag undir nafninu Lottó en hann er kannski þekktastur sem söng og dansarinn í ball- og stuðsveitinni Björtum sveiflum.


Andri Már - Perlur

Tónlistarmaðurinn Andri Már er 25 ára og kemur frá bítlabænum Keflavík. Hann var að senda frá sér lag af væntanlegri plötu sinni sem hann vann með Balatron og hyggst gefa út fljótlega á Spottanum.


Gugusar - Annan séns

Tónlistarkonan Gugusar vakti mikla athygli bransafólks fyrir tónleika sína á Iceland Airwaves. Nýja platan hennar 12:48 hefur fengið lofsamlegar viðtökur eftir að hún kom út í síðustu viku en þar er að finna lagið Annan séns sem er að takast á flug.


Doddi x N3dek - Love Yourself

Lagið Love Yourself segir Doddi að sé danstónlist fyrir miðaldra fólk sem skilur ekki EDM. Lagið er undir miklum áhrifum frá tónlist tíunda áratugarins og unnið með samstarfsfélaga Dodda N3dek sem hann kallar töframanninn frá Tangier.


Linus Orri - Supine

Um lagið Supine segir Linus Orri: „Félagi minn spurði mig einn daginn hvort ég vissi hvað orðið Supine þýðir, því hann ætlaði að semja ljóð eða lag sem byrjaði með orðunum Supine on the earth. Þessi lína hafði skoppað um í heilabúinu mínu í áratug þegar ég fann hljómagang og svo fleiri línur og alltíeinu var komið lag. Þegar ég sýndi honum svo lagið mundi hann ekki einu sinni eftir því að hafa sagt mér frá þessu.”


Helga Dýrfinna - Bergmálið

Lagið Bergmálið kom til Helgu Dýrfinnu þegar hún var orðin mjög veik af silíkonpúðunum sem hún var með. Lagið fjallar um að leita sér hjálpar og er unnið með Dennis FragileChild sem er Þjóðverji, en Helga Dýrfinna vinnur þar að sinni fyrstu plötu.