„Ætlaði að bakka út en þá tók skriðan bílinn með sér“

17.11.2022 - 18:55
Mynd: Sölvi Andrason / RÚV
Aurskriða féll á Grenivíkurveg í Eyjafirði á sjötta tímanum í morgun. Tveir bílar lentu í flóðinu. Annar ökumaðurinn segir það mikla heppni að enginn hafi slasast þegar bílarnir runnu með skriðunni.

Nokkrar minni skriður úr sama sárinu

Skriðan kom ofan úr fjallsbrún á Kræðufjalli við Grenivíkurveg, norðan við afleggjarann að Víkurskarði. Ofanflóðasérfræðingur segir skriðuna hafa komið af nokkrum krafti niður hlíðina.

Þrátt fyrir erfið veðurskilyrði náði dróni Lögreglunnar á Norðurlandi Eystra myndum sem sýna vel umfang skriðunnar.

„Síðan er það greinilegt að það hafa verið að koma minni skriður í sama sárið í morgun og í dag virðist vera líka af því að maður sér að bílarnir eru enn að hreyfast“, segir Sveinn Brynjólfsson hjá ofanflóðavakt Veðurstofunnar.

Erfitt að átta sig í aurskriðu í kolniða myrkri

Í öðrum bílum sem lenti í skriðunni var Ægir Jóhannsson á leið til vinnu. Hann segir hafa verið erfitt að átta sig á hvað var að gerast þegar hann ók inn í skriðuna í svartamyrkri. 

Mynd með færslu
 Mynd: Sölvi Andrason - RÚV

„Svo veit ég ekki fyrr en ég keyri þarna inn í aurskriðu sem hefur fallið og ætla svo að fara að reyna að bakka út. Þá er eins og að komi önnur aurskriða og tekur bílinn með sér og snýr honum þannig að hann rennur út af veginum.“

Horfði á eftir bílljósum færast með skriðunni

Ægir segir hafa verið óhugnanlegt að horfa á eftir hinum bílnum færast með skriðunni.

„Ég sá glitta í eitthvað sem var að koma þarna, að mér fannst vera maður, þá er það einn sem hafði verið inni í hinum bílnum. Hann var að klöngrast þarna yfir skriðuna. Það hefur ekki verið auðvelt og ekki skemmtilegt að vera í hinum bílnum, hlýtur að hafa verið mjög skelfilegt sko.“

Enn er talin hætta á fleiri skriðum á svæðinu og vegurinn því áfram lokaður, en staðan verður endurmetin í fyrramálið.