Hvað gerist ef ein manneskja sleppir sér alveg?

Mynd: Wikipedia / Wikipedia

Hvað gerist ef ein manneskja sleppir sér alveg?

16.11.2022 - 16:01

Höfundar

Í júlí 1518 fór af stað sérkennilegur faraldur á landsvæði sem nú tilheyrir Frakklandi. Faraldurinn upphófst hjá konu sem einn heitan sumardag steig út á stræti Strassborgar og byrjaði að dansa. Enn þann dag í dag leita leikir og lærðir skýringa á því sem svo gerðist. Melkorka Ólafsdóttir flutti pistil í tilefni danshátíðar í Reykjavík.

Melkorka Ólafsdóttir skrifar:

Í júlí 1518 steig kona út á stræti Strassborgar og byrjaði að dansa. Hún virtist óstöðvandi og hætti ekki fyrr en hún hneig niður fullkomlega örmagna að kvöldi. Í fyrstu gerðu aðrir ekki annað en að standa og horfa á. Þetta voru erfiðir tímar. Flóð höfðu gengið yfir meginland Evrópu, öfgar í veðurfari höfðu leitt til þess að uppskera brást. Farsóttir og hungursneyð fylgdu í kjölfarið. Þetta furðulega hátterni konunnar í steikjandi sumarhitanum vakti furðu og forvitni.

Eftir stutta hvíld hélt konan, nefnd frú Troffea, áfram að dansa. Viðleitni mannsins hennar, sem reyndi að fá hana til að hætta, skilaði engu. Hún dansaði viðstöðulaust í marga daga, með örstuttum hvíldum þegar hún örmagnaðist. Annars virtist fátt hafa áhrif á hana, ekki sársauki, ekki hitinn, hungrið eða neins konar skömm. Engin tónlist hljómaði, hún dansaði við eigin rytma og hreyfingar hennar voru óstöðvandi. Yfirvöldum var hætt að standa á sama. Konan var flutt burt á vagni. Farið var með hana til Savange að helgidómi dýrlingsins Vitusar. Heilagur Vitus var dýrlingur dansara og skemmtikrafta og hlaut að hafa lagt álög á aumingja konuna.

Þessar aðfarir dugðu ekki til. Betlarar, förufólk, nunnur, prestar og pílagrímar höfðu fylgst með dansinum, heillast af dansinum. Þau gátu ekki annað en fylgt fordæminu. Á innan við viku voru yfir 30 farin að dansa. Mjúkum, hægum hreyfingum dönsuðu þau viðstöðulaust, dag og nótt. Sársauki og meiðsli skiptu engu máli. Fólkið virtist ónæmt fyrir hita og hungri. Torg og stræti fylltust af dansandi fólki sem ekkert virtist geta stöðvað annað en örmögnun og mögulega dauði.

Yfirvöld leituðu skýringa. Tilraunir voru gerðar til að höfða til fyrrnefnds dýrlings með því að aka með fólk út fyrir bæinn, leggja krossa á brjóst þess og setja það í rauða skó. Ekkert virtist duga. Vísindamenn komu með jarðbundnari tillögur. Dansmanían hlaut að eiga sér náttúrulegar skýringar. Dansarnir voru með of heitt blóð. 

Ráðamenn komust á þeirri niðurstöðu að lækningin við þessari óstöðvandi dansmaníu hlyti að felast í því að láta fólk dansa hana úr sér. Því voru gerðar ráðstafanir til þess að styðja við og hvetja til dansins. Smiðum og súturum var skipað að breyta smiðjum sínum í tímabundna danssali og setja upp dansgólf þar sem áður höfðu verið markaðir. Pallarnir skyldu vera sýnilegir öllum. Til þess að efla dansinn voru tónlistarmenn kallaðir til, þeir áttu að spila viðstöðulaust, á fiðlur, trommur, flautur og lúðra. Ráðamenn réðu meira að segja atvinnudansara til að slást í hópinn, allt til þess að búa til kjöraðstæður fyrir þá sýktu að ná úr sér þessari undarlegu dansveiki.

Í stuttu máli virkuðu þessar ráðstafanir þveröfugt. Fæstir trúðu á líffræðilegar orsakir dansins. Fleiri drógu ályktanir um að dansmanían væri vitnisburður um reiði dansdýrlingsins Vitusar. Fólkið hlaut að þurfa að dansa frá sér syndir sínar. Fáir reyndust syndlausir og sífellt fleiri ákváðu að slást í hóp hinna manísku dansara. Á innan við mánuði voru dansararnir orðnir 400. Yfirvöldum leist ekki á blikuna og sneru taktíkinni við. Dansgólfin voru tekin niður og dans í opinberu rými var með öllu bannaður. Örfáar undantekningar fundust á ströngum viðurlögum við dansi en þær voru þá bundnar þeim skilmálum að danstónlist mætti aðeins leika á strengjahljóðfæri. Trommusláttur var með öllu bannaður og þótti talsvert líklegri til að ýta undir dansmaníuna. Undir miðjan september rénaði manían. Þá hafði hún staðið yfir í rúman mánuð. 

Dansmanían í Strassborg er ekki einsdæmi í sögunni, til eru heimildir um fleiri slíka atburði víðar í Evrópu, sér í lagi á miðöldum. En uppákoman árið 1518 er sú sem virðist best skrásett og ýmsir hafa velt þessum atburði fyrir sér síðan í von um að finna aðrar skýringar en álög Vitusar eða of heitt blóð. Fimmtándu aldar fræðimaðurinn og alkemistinn Paracelsus heimsótti Strassborg nokkrum árum eftir atburðinn. Hann komst að því að Frú Troffea, sú sem fyrst fór að dansa, hefði fyrst og fremst vilja angra eiginmann sinn og verða honum til skammar. Þannig gerði hún í því að dansa á sem undarlegastan hátt með tilheyrandi búkhljóðum og hoppum. Aðrar konur hefðu uppgötvað að þessi aðferð skilaði árangri og líka viljað pirra eiginmenn sína. Að sögn Paracelsusar voru konurnar knúnar áfram af frjálsum, óheiðarlegum og ósvífnum hugsunum. Uppruna dansmaníunnar var að hans mati að finna í ímyndunaraflinu.

Í langan tíma var sennileg skýring talin vera falin í áhrifum svepps, sem lagðist á uppskeru í löndum Evrópu á miðöldum. Sé sveppurinn innbyrtur getur hann valdið kippum, óvæntum hreyfingum og ofskynjunum. Sú kenning var hrakin síðar þegar fræðimenn bentu á að þessi sami sveppur veldur dofa í útlimum og kemur þannig alfarið í veg fyrir danshreyfingar af nokkru meðvituðu tagi.

Í seinni tíð hafa skýringar á dansmaníunni frekar verið sóttar til félagssálfræðilegra kenninga. Vísað er til fleiri skyldra atburða svo sem hlátursmitsins í Tansaniu árið 1963. Þar byrjuðu nokkrar skólastelpur að flissa. Það varð til þess að samnemendur þeirra fóru að hlæja, þar til meirihluti skólans lá í gólfinu grátandi af hlátri og loka þurfti skólanum. Stelpurnar fóru heim og smituðu fjölskyldur sínar, og síðan heilu þorpin, af hlátri. Læknar skráðu nokkur hundruð tilvika þessarar hláturveiki, sem stóð almennt yfir í um viku.

Minnihlutaáhrif eru þekkt fyrirbæri í félagsvísindum. Ef minnihluti er nógu staðfastur getur hann haft mikil áhrif og jafnvel snúið meirihluta á sitt band. Og eitthvað er í grundvallaratriðum heillandi við augnablik þar sem samfélagsgerðin virðist rofna, þar sem venjum er skipt út fyrir mun undarlegri og óútskýranlegri uppákomur. Þar sem ein manneskja getur valdið einhverju áður óhugsandi. Dansmanían fangar í senn hrifnæmi og sjálfseyðingu. Hún felur líka í sér líkamleg mótmæli, upprunnin á tímum þegar fólk gat fáu ráðið nema mögulega sínum eigin líkama. Dansmanían virðist um margt ógnvekjandi fyrirbrigði. En hún er líka heillandi og vekur til umhugsunar. Hvað gerist ef ein manneskja sleppir sér alveg? Hvað gerist ef hópur fylgir henni? Hvað verður til þegar kröfur umhverfis og samfélags fá að fjúka og bara dansinn og ekkert nema dansinn tekur yfir?

Melkorka Ólafsdóttir flutti pistil sinn í Víðsjá. Hlýða má á þáttinn í heild sinni hér í spilara RÚV.

Tengdar fréttir

Pistlar

Partýstand stjórnmálamanna kemur þeim í klandur

Innlent

Dansinn hjálpar til að gleyma stríðinu í Úkraínu

Reykjavíkurborg

Dansinn dunar á Vitatorgi