Biden: Ólíklegt að eldflaugin hafi komið frá Rússlandi

16.11.2022 - 08:35
epa10306380 US President Joe Biden attends a working session on energy and food security during the G20 Leaders Summit in Bali, Indonesia, 15 November 2022. The 17th Group of Twenty (G20) Heads of State and Government Summit runs from 15 to 16 November 2022.  EPA-EFE/BAY ISMOYO / POOL
 Mynd: EPA-EFE - AFP / POOL
Joe Biden, forseti Bandaríkjanna segir að ferill eldflaugarinnar sem lenti í austurhluta Póllands í gærkvöld sýni að ólíklegt sé að henni hafi verið skotið frá Rússlandi. Biden lét þessi orð falla eftir að leiðtogar vestrænna ríkja á G20 ráðstefnunni héldu neyðarfund í kjölfar þessa atburðar. Biden og aðrir leiðtogar hafa hvatt til stillingar og bent á nauðsyn þess að rannsaka nákvæmlega hvað gerðist.

Ludivine Dedonder, varnarmálaráðherra Belgíu, segir að líklega hafi sprengingin í Póllandi orðið eftir að eldflaugavarnarkerfi í Úkraínu skaut niður rússneska eldflaug.

Pólsk stjórnvöld staðfestu í gærkvöld að eldflaugin hafi verið af rússneskri gerð, en bent hefur verið á að bæði Rússar og Úkraínumenn hafa notað slík vopn síðan Rússar réðust inn í Úkraínu. Fréttastofa AP hefur eftir þremur bandarískum embættismönnum að Úkraínumenn hafi skotið þessari eldflaug að rússneskri eldflaug sem beint var að orkumannvirkjum innan landamæra Úkraínu. 

Tveir létust í sprengingu, þegar eldflaugin lenti nálægt þorpinu Przewodó, nálægt landamærum Póllands að Úkraínu. Forseti Póllands, Andrzej Duda, boðaði þjóðaröryggisráð landsins á sinn fund í gærkvöld, og í kjölfarið var viðbúnaðarstig pólskra hersveita hækkað. Þjóðaröryggisráð Ungverjalands var einnig kallað saman í gærkvöld. 

Á vettvangi Atlantshafsbandalagsins er atburðurinn litinn alvarlegum augum, enda er Pólland eitt af aðildarríkjum NATO. Sendiherrar allra aðildarríkja bandalagsins koma saman fyrir hádegi í dag á vettvangi Norður-Atlantshafsráðsins, æðstu stofnunar NATO, til að ræða atburði gærdagsins. 

Björn Malmquist
Fréttastofa RÚV