180 millimetra uppsöfnuð úrkoma á Eskifirði

16.11.2022 - 14:37
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Mikið hefur rignt á Eskifirði síðustu daga, eins og víðar á Austfjörðum. Þar hefur mælst lítilsháttar hreyfing í jarðlögum, en ekki talin ástæða til neinna frekari aðgerða. Þá er vel fylgst með jarðlögum á Seyðisfirði.

Uppsöfnuð úrkoma á Eskifirði undanfarna sjö daga er 180 millimetrar. Mun minna hefur samt rignt þar síðasta sólarhring.

Nýir mælar á Eskifirði til að fylgjast með jarðlögum

Svokallaðir aflögunarmælar voru nýlega settir niður í tvær borholur, utan þéttbýlisins, í hlíðum Eskifjarðar. Sævar Guðjónsson, eftirlitsmaður hjá Veðurstofunni segir að þar hafi mælst lítilsháttar hreyfing. „Já mér skilst að það séu einhverjir 2-3 millimetrar sem þetta hefur hreyfst þarna á 10 metra dýpi eða eitthvað svoleiðis. En það er nú ekkert til að hafa áhyggjur af, það er bara eðlilegt. Svona fjöll eru alltaf á hreyfingu.“

Ekki talin ástæða til aðgerða á Seyðisfirði

Og það er vel fylgst með jarðlögum á Seyðisfirði, en ekki hefur rignt eins mikið þar og á Eskifirði. Vatnsstaða í borholum í hlíðinni ofan bæjarins þar hefur því lækkað og er ekki talin ástæða til að grípa til aðgerða eins og staðan er núna.

Talsverð rigning næstu daga 

Það er spáð talsverðri eða mikilli rigningu á Suður- og Suðausturlandi næstu daga og í athugasemdum veðurfræðings á Veðurstofunni kemur fram að búast megi við auknu afrennsli og vatnavöxtum í ám og lækjum sem auki hættu á flóðum og skriðuföllum.