Segja hundrað eldflaugum hafa verið varpað á Úkraínu

15.11.2022 - 15:00
epa10234505 Police officers stand guard next to a damaged children's playground and buildings following missile strikes in downtown Kyiv (Kiev), Ukraine, 10 October 2022. Explosions have been reported in several districts of the Ukrainian capital Kyiv on 10 October. At least 11 people died and dozens injured as a result of rocket attacks targeting cities across Ukraine, the State Emergency Service (SES) of Ukraine said. Russian troops entered Ukraine on 24 February 2022 starting a conflict that has provoked destruction and a humanitarian crisis.  EPA-EFE/ROMAN PILIPEY
 Mynd: epa
Rússnesk flugskeyti hæfðu tvær íbúðablokkir í Kyiv í dag. Vitali Klitschko, borgarstjóri Kyiv, greinir frá þessu á samfélagsmiðlum. Árásin var gerð á Pechersk-hverfið. Loftvarnarkerfi borgarinnar kom í veg fyrir að fleiri flugskeyti hæfðu skotmörk sín.

Heilbrigðisstarfsfólk og björgunarlið er komið á vettvang, segir í færslu borgarstjórans. Engar upplýsingar hafa borist um hvort manntjón hafi orðið eða einhverjir hafi særst í árásinni.

Borgarstjórar Lviv í vestanverðri Úkraínu og Kharkiv í vestri greina einnig frá sprengjuárásum í borgunum. Andriy Sadovy, borgarstjóri Lviv, biðlar til borgarbúa á samfélagsmiðlum að leita skjóls undan árásunum. Rafmagn fór af víða í Úkraínu eftir árásirnar.

Úkraínsk yfirvöld segja um hundrað sprengjum hafa verið varpað á landið í dag, sem er það mesta hingað til síðan Rússar réðust inn í landið í febrúar. Árásirnar hafi að stóru leyti beinst að rafmagnsveitum í landinu, líkt og þegar stórfelldar árásir voru gerðar þann 10. október.

Volodymyr Zelensky segir Rússa ekki eiga eftir að ná markmiðum sínum með þessum sprengjuárásum. Úkraínumenn eigi eftir að koma öllu aftur í samt lag líkt og þeir gerðu eftir árásirnar í síðasta mánuði. Utanríkisráðherrann Dmytro Kuleba skrifaði á Twitter að hann hlakkaði til viðbragða frá leiðtogum G20 ríkjanna, sem eru saman á fundi í Balí. „Standið með fólki, ekki stríðsglæpamönnum,“ skrifar Kuleba á Twitter.