„Samvinnu er þörf til að bjarga heiminum“

epa10303856 Indonesia's President Joko Widodo speaks to journalists as he arrive at Ngurah Rai International airport at Tuban, Badung regency for the G20 Leaders' Summit in Bali, Indonesia, 13 November 2022. Bali will host the 17th Group of 20 (G20) Heads of State and Government Summit from 15 to 16 November 2022.  EPA-EFE/SONNY TUMBELAKA / POOL
Joko Widodo Indónesíuforseti ræðir við fjölmiðlafólk skömmu fyrir setningu leiðtogafundar G20 Mynd: EPA-EFE - AFP POOL
Forseti Indónesíu kallaði eftir samstarfi og samstöðu þjóða heims á setningarathöfn leiðtogafundar G20-ríkjanna á indónesísku eyjunni Balí í nótt. „Við eigum einskis annars úrkosti; samvinnu er þörf til að bjarga heiminum,“ sagði Joko Widodo Indónesíuforseti í opnunarræðu fundarins, sem haldinn er í skugga Úkraínustríðsins, blússandi verðbólgu og efnahgsþrenginga um allan heim og vaxandi hættu á matarskorti og hungursneyð í nokkrum af fátækustu ríkjum heims.

Forsetinn sagði að leiðtogafundurinn yrði að verða kveikja og hvati að efnahagsbata sem heimsbyggðin öll nyti góðs af. „Við eigum ekki að skipta heiminum upp í hluta. Við megum ekki leyfa heiminum að hefja annað kalt stríð,“ sagði Widodo.

Forsetinn sagði Indónesa hafa lagt mikið á sig til að sameina stærstu iðnríki heims á fundinum, þrátt fyrir Úkraínustríðið, en mjög var þrýst á gestgjafana að útiloka Rússa frá þátttöku vegna innrásarinnar.

Þungavigtarríki í heimsins vafstri 

G20-hópurinn samanstendur af 19 sjálfstæðum ríkjum og Evrópusambandinu. Um 80 prósent af þjóðarframleiðslu alls heimsins fer fram innan vébanda aðildarríkja þess, 75 prósent milliríkjaviðskipta fara í gegnum þau og í þeim búa um 60 prósent allra Jarðarbúa.