Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Fundur með íbúum Seyðisfjarðar vegna langvarandi úrkomu

15.11.2022 - 12:00
Hlíðin fyrir ofan Seyðisfjörð, lítið gil og lækur fellur niður hana miðja. Undir hlíðinni eru nokkur hús.
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Engar frekari hreyfingar hafa mælst í hlíðunum ofan Seyðisfjarðar þrátt fyrir miklar rigningar. Íbúar hafa áhyggjur af langvarandi rigningu en það á að rigna linnulítið fram í næstu viku. Veðurstofan ætlar að veita upplýsingar á íbúafundi síðar í dag.

 

Mikil vætutíð er á Austur- og Suðausturlandi og í gær spilltist vatnsbólið á Hallormsstað vegna vatnavaxta. Tvær beltagröfur urðu umflotnar vatni í Grímsá á Völlum þegar mjög óx í ánni. Önnur náðist á land í gær en hin fór hálf á kaf og verður meira mál að koma henni á þurrt. 

Sérstaklega er fylgst með hlíðunum ofan Seyðisfjarðar og Eskifjarðar vegna skriðuhættu. Undanfarinn sólarhring hefur rignt um 30 millimetrum á Seyðisfirði, samkvæmt mælum Veðurstofu Íslands. Það telst ekki mikil úrkoma á Seyðisfirði, segir Ester Hlíðar Jensen, skriðusérfræðingur hjá Veðurstofunni. „Það hefur í rauninni lækkað vatn í borholum á öllum mælum. Þannig að það virðist vera að sjatna. Þó svo að það hafi verið einhver rigning í gær þá hefur það ekki aukið á þrýsting. Það á að bæta í úrkomuna í kvöld og nótt þannig að við verðum bara að fylgjast með því. Það mældist hreyfing fyrir helgi og í rauninni vegna þess að það mun rigna eitthvað næstu daga þá töldum við rétt að vera með þennan íbúafund. Það ar óskað eftir því,“ segir Ester.  

Íbúafundurinn verður á Teams klukkan hálf fimm í dag og verður hægt að skrá sig inn á vefsíðu Múlaþings.

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV