Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Flytja nær 150 nautgripi af umdeildum bæ

15.11.2022 - 14:42
Mynd: Ólöf Rún Skúladóttir / RÚV
Starfsmenn Matvælastofnunar hafa unnið að því í gær og í dag að fjarlægja tæplega 150 nautgripi af bæ í Borgarfirði, ýmist til að koma þeim fyrir annars staðar eða senda þá í slátrun. Stofnunin ákvað að svipta eigendur dýrunum vegna þess að þeir gerðu ekki þær úrbætur í dýrahaldinu sem krafist var.

Ólöf Rún Skúladóttir fréttamaður var á vettvangi í Borgarfirði í dag og sagði frá aðgerðunum í hádegisfréttum. „Það er unnið að því að ráðstafa þessum nautgripum, tæplega 150, ýmist til lífs eða slátrunar.“

Fólkið á bænum var svipt vörslu gripanna á laugardag. Aðgerðir Matvælastofnunar hófust í gær og þá var lögreglan kölluð á vettvang til að tryggja öryggi allra. Fyrir helgi hvatti Matvælastofnun til þess að fólk flykktist ekki á staðinn eins og boðað hafði verið. Lögregla sá til þess að óviðkomandi kæmust ekki á vettvang. Upp úr hádegi voru nautgripirnir fluttir á brott. 

Ellen Ruth Ingimundardóttir, héraðsdýralæknir Suðvesturlands, segir að ekki hafi verið stætt á því að bíða með aðgerðir. Rætt verður við hana í sjónvarpsfréttum í kvöld.

Sigurborg Daðadóttir yfirdýralæknir sagði við Ólöfu Rún í morgun að nautgripirnir hefðu hvorki verið sveltir né beittir harðýðgi en ekki hefði verið orðið við kröfum um úrbætur. Því hafi verið ákveðið að svipta eigendur nautgripunum. Fólkið hefur áður verið svipt fé og hrossum.