Ekki útilokað að Rússar gefist upp og fari

15.11.2022 - 19:20
Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Nærri níu mánuðir eru nú liðnir frá því að Rússar réðust inn í Úkraínu. Margir héldu að Rússar myndu fljótlega ná öllum völdum vegna hernaðarlegra yfirburða, en reyndin hefur orðið önnur.

Mótspyrna Úkraínumanna hefur verið miklu öflugri en flestir gerðu ráð fyrir og í ljós hefur komið að rússneski herinn glímir við mikinn innri vanda, spillingu, agaleysi og úrsérgengin vopn. Spegillinn ræddi við Albert Jónsson fyrrverandi sendiherra í Moskvu og sérfræðing í öryggismálum og talið barst að hugsanlegum friðarviðræðum. Rétt er að taka fram að viðtalið við Albert var tekið áður en fregnir bárust af því að tveir hefðu látið lífið í Póllandi eftir að hafa orðið fyrir flugskeyti, sem talið er vera rússneskt. Pólverjar boðuðu til neyðarfundar í þjóðaröryggisráði sínu og til skoðunar hver viðbrögð NATÓ verði. 

Tími á diplómatíska lausn?

„Það eru fréttir um það að Bandaríkjastjórn hafi, ekki beitt þrýstingi, en gefið í skyn við Úkraínu að kannski sé kominn tími til að huga að diplómatískri lausn" segir Albert. „En ég hef enga trú á því að Bandaríkjastjórn fari að beita Úkraínu einhverjum verulegum þrýstingi. Það er bara mikil samstaða í pólitíkinni í Bandaríkjunum um stuðninginn við Úkraínu". 

Ekki útlit fyrir friðarviðræður

En heyrist þér á Selínskí Úkraínuforseta að einhver von sé um friðarumleitanir á meðan Pútín er við völd í Rússlandi?

„Nei, ekki eins og kröfugerðin er lögð fram. Þá er það ekki svo. Hins vegar hafa styrjaldir hreyfiafl og annað. Það er ómögulegt að segja hvað getur gerst. Eitt sem er t.d. opið í þessu er hvers konar tryggingar Úkraínumenn fengju gegn því að láta af hendi eitthvað af sínu landi; öryggistryggingar, tryggingu um aðild að Evrópusambandinu, aðild að NATÓ?

Myndi það duga Úkraínumönnum? Í staðinn myndu þeir falla frá kröfum um að öllu landsvæði yrði skilað. Það er ómögulegt að spá um það".

Rússneski herinn gæti gefist upp

„En svona spekúlasjónir sér maður netinu og haft eftir ónefndum embættismönnum sérstaklega í bandaríska stjórnkerfinu. Kannski þurfi að huga að þessu og að Úkraínumenn eigi ekki möguleika á að hrekja Rússana alveg úr landi.

En hafandi sagt þetta;  það er ekki útilokað miðað við allt sem á undan er gengið, hrakför Rússa, að rússneski herinn bara leysist upp í Úkraínu og gefist upp og fari. Það er ekki útilokað miðað við hvernig þetta hefur gegnið". 

Alvarlegir veikleikar hjá Rússum

„En ég hef ekki trú á því. Ég held að þeir grafi sig niður núna. Þeir eru að því og að koma sér í varnarlínu. Það er miklu auðveldara að vera í þeirri stöðu heldur en að reyna sóknaraðgerðir.

En þetta er ekki útilokað. Þetta er svo ótrúlega slök frammistaða og listinn af alvarlegum grundvallar veikleikum í rússneska hernum er svo langur og ótrúlegur að það má eiginlega alls vænta í þessu" sagði Albert Jónsson.

Lengra og ítarlegra viðtal við Albert má heyra í spilaranum hér að ofan.